Erlent

Hillary Clinton hughreystir ungan samkynhneigðan dreng

Bjarki Ármannsson skrifar
"Framtíð þín verður stórkostleg,“ skrifar Clinton til drengsins, sem sagðist hræddur við að vera samkynhneigður.
"Framtíð þín verður stórkostleg,“ skrifar Clinton til drengsins, sem sagðist hræddur við að vera samkynhneigður. Mynd/AP/Humans of New York
Ungum dreng sem vakti athygli í netheimum fyrir að segjast hræddur við það að fólk muni ekki kunna vel við sig vegna þess að hann er samkynhneigður hafa borist stuðningskveðjur frá þúsundum manna. Forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton er meðal þeirra sem senda honum jákvæð skilaboð.

Mynd af drengnum birtist á hinni geysivinsælu bloggsíðu Humans of New York. Þar eru birtar myndir af fólki héðan og þaðan úr New York-borg og spjallað við það um lífið og veginn.

„Ég er samkynhneigður og er hræddur um hvað framtíðin ber í skauti sér,“ er haft eftir drengnum, sem er grátandi á myndinni. „Ég er hræddur um að fólk muni ekki kunna vel við mig.“

Stuðningskveðjum rignir yfir drenginn, en á síðunni kemur hvergi fram hvað hann heitir eða hversu gamall hann er.

„Fólk mun ekki bara kunna vel við þig, það mun elska þig,“ skrifar Ellen DeGeneres, leikkona og skemmtikraftur, sem einnig er samkynhneigð. „Ég var bara að heyra af þér fyrst núna og ég elska þig samt strax.“

„Sem fullorðinn einstaklingur, spái ég þessu: Framtíð þín verður stórkostleg,“ skrifar svo Clinton. „Það mun koma sjálfum þér á óvart hvers þú ert megnugur og hvaða ótrúlegu hluti þú munt gera. Finndu þá sem elska þig og trúa á þig – Það er nóg til af þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×