Körfubolti

Hill gæti verið að spila upp á framtíð sína hjá Stólunum á föstudaginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jerome Hill hitar upp með Stólunum.
Jerome Hill hitar upp með Stólunum. vísir/ernir
„Það er ekkert launungarmál að við erum búnir að vera að spá í hlutina síðan í desember,“ segir Kári Marísson, aðstoðarþjálfari Tindastóls í Dominos-deild karla í körfubolta, um Kanamál liðsins við Vísi.

Bandaríski miðherjinn Jerome Hill hefur ekki alveg staðið undir væntingum hjá Stólunum, en hann keypti sér lengri tíma á Króknum með góðum leikjum fyrir jólafrí.

„Síðustu tveir leikirnir fyrir jól gáfu honum lengra líf ef þannig má að orði komast. En við erum alltaf að hugsa málið,“ segir Kári sem ítrekar að engin ákvörðun hefur verið tekin um Kanamálin þó félagaskiptaglugganum verði lokað á sunnudaginn.

Myron Dempsey, Bandaríkjamaðurinn sem spilaði með Tindastóli í fyrra, er orðaður við silfurlið síðasta árs. Kári vill ekkert staðfesta um það.

„Hvort það verði Myron sem kemur eða einhver annar kemur í ljós. Það er auðvitað ef Hill fer. Það er ýmislegt í gangi og það þarf eitthvað að gerast ef við látum Hill fara. Það er samt ekkert öruggt í þessu,“ segir Kári.

Jerome Hill er að skora 17,3 stig að meðaltali í leik og er frákastahæstur með 11,2 slík að meðaltali í leik. Tindastóll heimsækir Hauka í Dominos-deildinni í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD á föstudaginn.

„Hill verður með á föstudaginn og það er búið að fara yfir það með honum að það gæti verið kveðjuleikur hans. Það fer svolítið eftir því hvernig hann stendur sig. Hann veit af þessu,“ segir Kári Marísson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×