Innlent

Hildur vill í fyrsta sætið

Hjörtur Hjartarson skrifar
Hildur Sverrisdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar næsta vor. Hún segir það nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að boða nýja nálgun í borgarmálum.

Hildur er 35 ára lögmaður og hefur á kjörtímabilinu starfað í umhverfis og skipulagsráði borgarinnar auk þess sem hún tók sæti Gísla Marteins Baldurssonar í borgarstjórn í september. Hún vill stuðla að breytingum innan Sjálfstæðisflokksins.

„Ég tel nauðsynlegt að í Sjálfstæðisflokknum í dag í borgarmálum sé boðið upp á nýja nálgun. Í því felst meðal annars að hrósa pólitískum andstæðingum þegar þeir gera vel og taka þá þátt í því starfi í þágu borgarbúa og geta þannig staðið betur að vígi þegar þarf að gagnrýna það sem er alls ekki nógu vel gert.“

Hildur segir það afar mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn verði í meirihluta í næstu borgarstjórn og að hún sé rétta manneskjan til að leiða flokkinn í þá átt.

„Ég hef til að mynda unnið mjög mikið og mjög vel með fólki úr öllum flokkum. Ég tel mig geta stuðlað að því að mynda meirihluta, að Sjálfstæðisflokkurinn verði í meirihluta á næsta kjörtímabili. Það er mjög aðkallandi og ég treysti mér til að leiða það nauðsynlega verkefni.“

Hildur segist ætla að leggja áherslu á borgarskipulag sem hún segir vera grunninn að betri borg. Hún telur að ef takast eigi að þétta byggð í Reykjavík sé nauðsynlegt að flugvöllurinn víki.

„Það að ætla að þétta byggð og horfa ekki til mikilvæga svæðisins í Vatnsmýrinni fer að mörgu leyti ekki saman. Að því leytinu til tel ég að finna ætti flugvellinum nýjan stað þar sem hann þjónustar alla landsmenn og engu öryggi er stefnt í voða.“

Hildur er fjórði frambjóðandinn sem sækist eftir fyrsta sætinu en auk hennar stefna Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson á að leiða flokkinn í borginni. Það vex Hildi hins vegar ekki í augum að takast á við þennan hóp um oddvitasætið. „Nei, ég er í stjórnmálum því ég tel að stjórnmálamenn eiga að tala mjög hátt og skýrt og gera allt sem þeir geta til þess að þeirra hugmyndir verði ofan á til að gera vel. Og þá gerir maður bara það sem þarf að gera til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×