Innlent

Hildur Sverrisdóttir í borgarstjórn - Jórunn hættir

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir hefur mikla reynslu af borgarmálum og þau Gísli Marteinn hafa verið samstíga í gegnum tíðina.
Hildur Sverrisdóttir hefur mikla reynslu af borgarmálum og þau Gísli Marteinn hafa verið samstíga í gegnum tíðina.
Hildur Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi tekur sæti Gísla Marteins Baldurssonar í borgarstjórn. Þetta staðfesti hún í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Ég er mjög spennt,“ sagði Hildur. „Ég hef verið í umhverfis- og skipulagsráði með Gísla Marteini þannig að ég tel mig vera mikið inni í þessu máli,“ útskýrir hún og bætir við að þau Gísli hafi jafnan verið sammála um borgarsýnina. Hún segist hlakka til þess að taka sæti hans en að vissulega sé eftirsjá að Gísla Marteini úr borgarmálunum. „Ég geri ráð fyrir því að fyrsti borgarstjórnarfundurinn minn verði á þriðjudaginn.“

Ástæðan fyrir því að Hildur fékk sætið er sú að Jórunn Frímannsdóttir varaborgarfulltrúi ákvað að gefa ekki kost á sér.

„Ég get staðfest það að ég ætla ekki að halda áfram,“ sagði hún. „En þetta var ekki auðveld ákvörðun. Ég gaf mig fram til þessara starfa á sínum tíma og finnst ekkert auðvelt að ákveða að hætta því.“ Jórunn segir sérstaka stöðu vera uppi í flokknum og í pólitík almennt.

„Almenningur er uppgefinn og pólitíkusar einskis metnir,“ segir Jórunn. „Ég er ekki að segja að það sé ekki ástæða fyrir því en þetta er ekkert sérstaklega spennandi vettvangur akkúrat núna.“

Aðspurð segir Hildur Sverrisdóttir það hafa komið sér á óvart að Jórunn skyldi ekki halda áfram. „Ég gerði ráð fyrir því að hún tæki þetta sæti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×