Handbolti

Hildigunnur: Ekki séns að vera áfram hjá Tertnes

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hildigunnur Einarsdóttir.
Hildigunnur Einarsdóttir. Vísir/Ernir
Hildigunnur Einarsdóttir, landsliðskona í handbolta, er gengin til liðs við norska B-deildarliðið Molde frá úrvalsdeildarliðinu Tertnes. Hildigunnur staðfesti þetta við mbl.is í morgun.

Hildigunnur ber Tertnes ekki vel söguna í samtalinu við mbl.is.

„Þeir hafa gerst sekir um ítrekuð samningsbrot, bæði hvað varðar íbúð, vinnu og fleira. Ég hugsaði að það væri ekki þess virði að vera á stað þar sem manni liði ekki vel.

„Ég var hætt að vera sátt þarna og fékk nóg í janúar. Ég hringdi þá í umboðsmanninn minn og athugaði hvort það væri hægt að losna,“ sagði Hildigunnur sem var afar ósátt með stöðu sína hjá Tertnes.

„Þegar ég kom fyrst sögðu stelpurnar í liðinu að þjálfarinn væri svolítið hallandi á stelpur sem væru búnar að vera lengi í liðinu. Ég hugsaði að ég mundi bara vinna mér inn sæti en fékk nóg þegar ég sá í janúar, búin að vera í tvö og hálft ár, að samkeppnin hafði bara aldrei verið ósanngjarnari.

„Það var ekki séns að vera í Tertnes áfram svo ef það hefði ekki gengið upp að fara til Molde þá hefði ég komið bara heim. Nú ætla ég bara að einbeita mér, standa mig vel og koma mér í betra handboltaform. Ég finn út úr næstu skrefum eftir það,“ sagði Hildigunnur við mbl.is.

Hjá Molde hittir hún fyrir Einar Jónsson, aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins en hann tók við þjálfun norska liðsins 2013. Hildigunnur gerði samning við Molde út leiktíðina með möguleika á framlengingu að því loknu. Liðið er í 2. sæti B-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×