Fótbolti

Hiddink: Öfunda PSG af bekknum þeirra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hiddink í viðtali eftir leikinn í París í gær.
Hiddink í viðtali eftir leikinn í París í gær. vísir/getty
Þrátt fyrir 2-1 tap í fyrri leiknum gegn Paris Saint-Germain segir Guus Hiddink, knattspyrnustjóri Chelsea, að sínir menn eigi enn góða möguleika á að komast áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

„Úrslitin eru neikvæð en það er mikilvægt að hafa útivallarmarkið,“ sagði Hiddink en Jon Obi Mikel skoraði mark Chelsea sem gæti reynst svo dýrmætt.

„Það var sárt að fá á sig mark undir lokin því mér fannst við spila mjög vel á móti sterku liði,“ bætti Hollendingurinn við.

Zlatan Ibrahimovic kom PSG yfir en Mikel jafnaði metin í 1-1 á lokamínútu fyrri hálfleiks. Og þannig var staðan fram á 78. mínútu þegar varamaðurinn Edinson Cavani skoraði sigurmark Parísarliðsins.

„Ég öfunda PSG svolítið af bekknum þeirra sem er mjög sterkur,“ sagði Hiddink en varamannabekkur Chelsea var að mestu skipaður ungum og óreyndum leikmönnum á meðan menn á borð við Cavani og Javier Pastore komu inn á sem varamenn fyrir PSG.

Seinni leikur liðanna fer fram á Stamford Bridge 9. mars næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×