Erlent

Hið gleymda stríð: Friðarviðræður hafnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Stríðandi fylkingar í Jemen leita nú sátta í Sviss, eftir að sjö daga vopnahlé tók gildi í morgun. Sameinuðu þjóðirnar leiða viðræðurnar og vonast er til að þær beri árangur svo hægt sé að binda enda á styrjöld, sem hefur ekki verið mikið á milli tannanna á fólki.

Í Jemen er bandalag sem leitt er af Sádi-Arabíu að reyna að brjóta uppreisn Húta á bak aftur og að koma forseta landsins, Abdrabbuh Mansour Hadi, aftur til valda. Reiknað er með að friðarviðræðurnar muni standa yfir alla vikuna.

Það flækir einnig myndina að Al-Qaeda samtökin eru mjög virk í landinu og Íslamska ríkið einnig.

Í Jemen berjast uppreisnarmenn sem kalla sig Húta, en þeir eru sagðir vera studdir af Íran. Meðal bandamanna Hadi eru Sádi-Arabía, sem leiða baráttuna, og hefur bandalagið margsinnis verið sakað um að fremja stríðsglæpi í landinu. Reglulega berast fregnir af því að loftárásir hafi verið gerðar á sjúkrahús og hefur höfnum og flugvöllum verið lokað, svo erfitt er að flytja nauðsynjar til landsins. Innviðir landsins hafa einnig orðið fyrir verulegum skakkaföllum í átökunum.

Þá hafa Íslamistar notað átökin í Jeman til að koma sér þar fyrir og nýverið var sagt frá því að vígamenn tengdir Al-Qaeda hafi hertekið tvo bæi í suðurhluta landsins, en þeir hafa lengi verið virkir í landinu. Íslamska ríkið hefur einnig orðið virkt í landinu á síðustu mánuðum.

Átökin hófust eftir að Hútar sóttu fram gegn höfuðborg Jemen, Sanaa, í september í fyrra og á aðeins nokkrum dögum neyddu þeir forsætisráðherra landsins til að segja af sér. Þann 21. september var undirritað samkomulag um myndun nýrrar ríkisstjórnar sem allir ættbálkar Jemen áttu að fá að taka þátt í.

Hútar neituðu þó að skrifa undir. Aðskilnaðarsinnar sem höfðu lengi barist fyrir sjálfstæði í suðurhluta landsins skrifuðu undir samkomulagið.

Minnst hundrað manns höfðu þegar látið lífið í átökunum á þessum nokkru dögum.

Abd-Rabbu Mansour Hadi, forseti Jemen, flúði til Sádi-Arabíu þegar átökin hófust að fullu í byrjun þessa árs og safnaði þar bandamönnum. Í fyrstu gengu níu lönd til liðs við Hadi, þar á meðal Sádi-Arabía, Katar, Sameinuðu Arabísku furstadæmin
, Jórdanía, Egyptaland, Marokkó og Súdan. Bandalagið réðst til atlögu í mars og stuðningur þeirra hófst með loftárásum gegn Hútum.

Nú berjast aðilar alls staðar að úr heiminum í Jemen. Nýlega bárust fregnir af því að Sameinuðu arabísku furstadæmin hefðu sent um 450 málaliða frá Suður-Ameríku til Jemen.

Auk þess gera Bandaríkin reglulega drónaárásir gegn Al-Qaeda í Jemen.


Rúmlega 2,3 milljónir manna eru á vergangi eftir að hafa þurft að flýja heimili sín vegna bardaga.Vísir/EPA
Sameinuðu þjóðirnar áætla að 21,2 milljónir manna, eða um 82 prósent íbúa Jemen, þurfi einhvers konar neyðaraðstoð eða vernd. Þó segja SÞ að þessar tölur séu líklega mikið vanmat. Rúmlega 2,3 milljónir manna eru á vergangi eftir að hafa flúið heimili sín vegna átaka. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, sagði í október að þá hefðu minnst 5.564 manns látið lífið í stríðinu sem hafði staðið yfir í rúma sjö mánuði.

Talið var að rúmlega 26 þúsund manns hefðu særst. Fjöldi látinna var hærri í Jemen en hann var í Sýrlandi á sama tímabili.

Mikil fátækt

Áður en átökin hófust var Jemen ekki jafn vel statt og nágrannar sínir, efnahagslega séð, þar sem þeir sitja ekki á nærri því jafn stórum olíulindum og nágrannar sínir. Jemen er með fátækari löndum heimsins. Þá studdu stjórnvöld landsins Írak í Persaflóastríðinu 1990 til 1991 og því hafa nágrannar þeirra ekki gleymt. Þróunarhjálp hefur dregist saman og Jemen hefur þurft að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þrátt fyrir mikla fátækt þykir Jemen mikilvægt vegna staðsetningar við Bab-al-Mandab sundið. Þar í gegn fer stór hluti af olíuflutningum heimsins og óttast nágrannaríki Jemen að Hútar myndu draga úr öryggi á svæðinu og frjálsu aðgengi að sundinu og þar með Súesskurðinum.

Átökin hafa gert aðstæður íbúa mun verri og heilbrigðiskerfi landsins er í molum. WHO telur að minnst 15,2 milljónir hafi ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfið er hrunið þar sem fjöldi sjúkrahúsa hafa orðið fyrir árásum og birgðir eru nánast engar.

Sameinuðu þjóðunum hefur borist rétt rúmlega helmingur af því fjármagni sem vantar til að koma íbúum Jemen til varnar. Í um tíu mánuði hefur WHO verið nánast eini aðilinn í landinu sem dreifir lyfjum og heilbrigðistengdum nauðsynjum.

Ástandið í Jemen virðist hafa versnað dag frá degi frá því að átökin hófust og sérstaklega eftir myndun bandalags Sáda. Fjöldi almennra borgara hefur látið lífið og þar er ekkert lát á. Minnst 5.700 manns hafa fallið í stríðinu og þar af er nærri því helmingurinn almennir borgarar.

Deilandi fylkingar hafa gert loft- og stórskotaárásir á hvorn annan án þess að velta mannfalli meðal borgara með sér. Neyðaraðstoð berst ekki til þessa fátæka lands og rúmlega annar hver íbúi landsins á erfitt með að fá að borða á degi hverjum.

Þrátt fyrir mjög slæmt ástand og hörð átök hefur stríðið ekki fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum um allan heim. Nokkrum sinnum hafa atvik átt sér stað í stríðinu sem vekja athygli fólks, eins og loftárásir á brúðkaupsveislur, en þau atvik hafa þó fljótt gleymst aftur og þar með átökin sjálf.

„Ekki jarða mig“

Í október vakti myndband af sex ára særðu barni mikla athygli, en hann særðist í stórskotaárárs Húta á borgina Taiz í Jemen. Farred Shawky var fluttur af föður sínum á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir sprengjubrotum. Hann er sagður hafa verið að leik með vinum sínum fyrir utan skóla þegar sprengja féll nærri þeim þann 13. október.

„Ekki jarða mig,“ sagði Fareed við lækna sem voru að hlúa að honum. Faðir hans lagði hönd á læri hans, hughreysti hann og hló. „Ég var að reyna að róa hann á sama tíma og ég var hágrátandi. Ég vildi ekki að hann væri hræddur líka,“ sagði faðir hans al-Thamry Shawky við CNN. „Ég sagði: Ekki vera hræddur sonur minn. Þér mun batna.“

Fareed lést af sárum sínum fjórum dögum seinna en hann hafði særst á höfði og var með innvortis blæðingar.

Ljósmyndarinn Ahmed Basha fangaði síðustu daga Fareed á filmu.



لا تقبروناش.. لا تقبروناش ! خاص : تعز سيتي : فيديو للشهيد الطفل فريد شوقي الذماري وهو يناجي من حولة ويقول لهم " لا تقبروناش ، لا تقبروناش " ، قبل ان يودع الحياة متأثراً بجراحة بسبب شظايا اصابتة بالراس ادخلتة في غيبوبة ليومين وبعدها استشهد وذلك اثر قذيفة حوثية اصابتة و 4 اخرين اثناء ماكان يلعب امام منزلة بالقرب من شارع الخياطين #YemenFarid Shawqi Farooq, a five-year-old child from Taiz was happily playing with his peers next to his school at 26 St. on Oct 13, 2015 and all of a sudden, a Houthi Shell fell beside him and, sorrowfully, some pieces of shrapnel were rested in his head. What was sad enough is that once his father took him to the hospital, Fareed was innocently screaming : " Dad, do not bury me; Do not BURY ME ". Unfortunately, Fareed passed away after a surgical operation leaving his family full of sadness! His childish desire to live and the echo of his appealing phrase :" Do not bury me" are the only things left for us through which we could call for humanity of the world, if any!#do_not_bury_me #لاتقبروناشالرجاء النشر على اوسع نطاق وفضح جرائم الحوثيين .. * تصوير : عبدالحكيم مغلس ..

Posted by ‎مدينة تعز - Taiz City‎ on Saturday, October 17, 2015
Dauði Fareed vakti, eins og áður segir, mikla athygli á samfélagsmiðlum og var drengnum líkt við Aylan Kurdi, sem drukknaði við strendur Grikklands fyrr á árinu. Andlát Aylan vakti gífurlega athygli og beindi heimurinn sjónum sínum að þjáningum flóttamanna í miklum mæli. Þjáningar íbúa Jemen, virðast þó hafa fallið fljótt aftur í gleymsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×