Lífið

Hetjur hafsins á hinni árlegu húðflúrhátíð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sjómenn og flúr þeirra verða í forgrunni ITE 2015 sem fram fer um helgina.
Sjómenn og flúr þeirra verða í forgrunni ITE 2015 sem fram fer um helgina.
Helgina 4. - 6. september fer fram á Hótel Sögu hin árlega húðflúrhátíð; Icelandic Tattoo Expo, í fjórða sinn. Hátíðin hefur vaxið ár frá ári og í ár verða 54 tattoo listamenn hvaðanæva út heiminum að skreyta skinn um allan Súlnasalinn og verður hægt að finna listamenn úr öllum geirum húðflúrsins.

Í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar segir að áhersla verði lögð á flúr sem prýða hetjur hafsins. Sjómenn kynntust þessarri sérstöku listgrein á ferðum sínum og höfðu þeir hana með sér til heimahafna. Urðu því hafnarborgir álfunnar helstu vígi húðflúrlistamanna fyrr á öldum og fram á okkar daga.

Það verður mikið um dýrðir í Súlnasal Hótel Sögu um helgina.
Það eru einmitt flúrin sem prýddu og prýða enn hetjur hafsins, sem eru ein af áherslum International Tattoo Expo 2015. Öll þekkjum við einhvern jaxlana sem á liðinni öld sigldu um heimsins höf og voru margir hverjir skreyttir framandi fúrum frá fjarlægum löndum. Oftar en ekki voru sögurnar sem flúrunum fylgdu ævintýrum líkastar, enda voru þetta ævintýri ungra manna sem þurftu þá eins og ávallt, að hlaupa af sér horninn.

Alla helgina verður keppt í hinum ýmsu skólum flúrsins og er hreint með ólíkindum hvað hægt er að töfra fram mikla fjölbreyttni og flugelda í flúrum fólks. Á milli keppnanna verða síðan stöðug skemmtiatriði á boðstólunum. Það er því er kjörið tækifæri fyrir alla til að koma í Súlnasal Hótel Sögu um helgina og sjá listamennina fremja sinn seið og njóta hinna fjölmörgu skemmtiatriða um leið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×