Íslenski boltinn

Hetja Stjörnunnar: Vissi allan tímann hvert Pape myndi skjóta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Fannar þegar hann lék með Fram.
Hörður Fannar þegar hann lék með Fram. vísir/andri marinó
Leikur Stjörnunnar og Víkings Ó. rennur Herði Fannari Björgvinssyni eflaust seint úr minni.

Vegna forfalla tveggja markmanna Stjörnunnar stóð Hörður í markinu í kvöld og hann reyndist hetja liðsins með því að verja tvær spyrnur í vítakeppninni sem þurfti að grípa til eftir að staðan var jöfn, 2-2, eftir venjulegan leiktíma og framlengingu.

„Ég vissi hvar margir myndu skjóta,“ sagði Hörður sem þurfti að glíma við átta spyrnur í vítakeppninni.

„Það fer rosalega lítið í gegnum hausinn á manni. Maður ákveður bara hvert maður ætlar að fara,“ bætti Hörður við. Hann var vel undirbúinn fyrir vítakeppnina.

Sjá einnig: Sjáið vítaspyrnukeppnina í Garðabænum í heild sinni | Myndband

„Ég vissi allan daginn hvert Pape [Mamadou Faye] var að fara að skjóta. Það kom mér ekki á óvart,“ sagði Hörður sem varði einnig frá Alfreð Má Hjaltalín.

Markvörðurinn ungi viðurkennir að hafa fundið fyrir smá taugaspennu á meðan leiknum stóð en ekki fyrir hann.

„Það kom smá stress í framlengingunni en það er eðlilegt. En ég var ekkert stressaður fyrir leikinn, ég spila með góðum strákum sem eru tilbúnir að hjálpa mér,“ sagði hetja Stjörnunnar í kvöld að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×