Fótbolti

Hetja Sevilla stráir salti í sár Liverpool-manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Coke fagnar sigrinum í gærkvöldi.
Coke fagnar sigrinum í gærkvöldi. Vísir/Getty
Jorge Andújar Moreno, betur þekktur sem Coke, stal fyrirsögnunum á bæði Englandi og á Spáni á morgun en hann skoraði tvö mörk þegar Sevilla vann 3-1 sigur á Liverpool í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í gær.

Coke var búinn að spila tólf fyrstu Evrópuleikina á tímabilinu án þess að ná að skora en hann skoraði tvívegis þegar Sevilla snéri leiknum við í seinni hálfleiknum.

Forseti Sevilla talaði það fyrir leikinn að það skipti engu máli þótt að það væru fimm sinnum fleiri stuðningsmenn Liverpool en stuðningsmenn Sevilla á leiknum. "Það skiptir engu máli því við erum Sevilla," sagði Jose Castro.

Coke vísaði í þessi ummæli og stráði salti í sár Liverpool-manna eftir leikinn. „Þú heyrðir ekkert í ensku stuðningsmönnunum á vellinum. Þessi fimm þúsund frá Sevilla voru frábær" sagði Coke eftir leikinn og bætti við:

„Þessi sigur er fyrir stuðningsmennina okkar. Þessi sigur er fyrir alla þá sem gerir það svo frábært að spila fyrir þennan klúbb. Það eru þau sem gera það þess virði að gefa allt sitt fyrir Sevilla," sagði Coke.

Liverpool komst í 1-0 og var yfir í hálfleik. Sevilla jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks og svo gerði Coke út um leikinn með tveimur mörkum á síðasta hálftímanum.

Coke spilar vanalega sem hægri bakvörður en var færður framar á hægri kantinn til að leysa af Danann Michael Krohn-Dehli sem var meiddur. Tvö af fimm mörkum hans á tímabilinu komu í úrslitaleiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×