Innlent

Hesturinn Glóðafeykir mætti inn í stofu á aðfangadagskvöld

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Einar Öder og Glóðafeykir inn í stofu í Halakoti á aðfangadagskvöld þar sem þeir áttu góða stund saman
Einar Öder og Glóðafeykir inn í stofu í Halakoti á aðfangadagskvöld þar sem þeir áttu góða stund saman mynd/hildur öder
Einari Öder Magnússyni, landsþekktum hestamanni á bænum Halakoti í Flóahreppi, brá heldur betur í brún þegar fjölskyldan sat við matarborðið á aðfangadagskvöld þegar uppáhalds hesturinn hans Glóðafeykir, 11 vetra, birtist inni á stofugólfi þar sem þeir áttu góða stund saman. Þetta var leyniatriði Svanhvítar Kristjánsdóttur, eiginkonu Einars og barna þeirra, sem sló í gegn. Sérstakt samband hefur skapast á milli Glóðafeykis og Einars Öder í erfiðum veikindum Einars en hann glímir við blöðruhálskirtilskrabbamein.

Einar Öder er landþekktur hestamaður og öflugur talsmaður hestsins og íslenskrar reiðmennsku á erlendri grundu.mynd/hildur öder
„Þetta gekk rosalega vel, Glóðafeykir var stilltur og góður og þeir pabbi áttu frábæra stund saman, þetta kom  honum í gjörsamlega opna skjöldu,“ segir Hildur Öder eitt barna Einars og Svanhvítar en auk Hildar eiga þau þríbura.

Einar Öder og Glóðafeykir hafa unnið til fjölmargra verðlauna en stærsti sigur þeirra var á landsmótinu 2012 þegar þeir unnu B-flokkinn með glæsibrag. Einar hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar innan hestamennskunnar, m.a gullmerki Félags tamningamanna, sem er æðsta viðurkenning sem félagsmanni getur hlotnast.

Einar hefur um áratuga skeið unnið að framgangi hestamennskunnar hér innanlands og verið öflugur talsmaður hestsins og íslenskrar reiðmennsku á erlendri grundu.

Hann var um árabil landsliðseinvaldur og í því starfi sýndi hann svo sannarlega að þar var fagmaður á ferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×