Enski boltinn

Herrera: Ég er ekki enskur og er ekki frá Manchester en ég elska United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ander Herrera fagnar marki fyrir United.
Ander Herrera fagnar marki fyrir United. vísir/getty
Ander Herrera, miðjumaður Manchester United, vill vera í herbúðum félagsins eins lengi og mögulegt er, en Spánverjinn spilaði enn og aftur vel fyrir United þegar liðið lagði Manchester City, 1-0, í deildabikarnum í gærkvöldi.

Herrera hefur verið einn besti maður United það sem af er á leiktíðinni en honum hefur gengið illa að vinna sér inn fast sæti í byrjunarliðinu undanfarin misseri.

Baskinn segist njóta þess að spila stórleiki eins og borgarslaginn í Manchester. Þó hann sé ekki þaðan finnur hann fyrir því hversu miklu máli þetta skiptir fólkið.

„Ég elska þessa leiki. Þegar maður er leikmaður Manchester United og maður þekkir sögu félagsins verður maður að bera virðingu fyrir því hversu miklu máli þessir leikir skipta stuðningsmennina,“ segir Herrera í viðtali við heimasíðu United.

„Mér leið líka eins og fólkinu. Ég er ekki enskur og er ekki frá Manchester en ég elska þetta félag og ég hef notið þess að vera hérna. Ég vil ekki bara vera hver annar leikmaður. Ég vil sýna að mér líður vel hérna og ég vil vera hér eins lengi og mögulegt er,“ segir Ander Herrera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×