Erlent

Hernaðaraðgerðir undirbúnar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Á Möltu voru bornir til grafar 24 flóttamenn sem drukknuðu eftir að bát þeirra hvolfdi út af ströndum Líbíu.
Á Möltu voru bornir til grafar 24 flóttamenn sem drukknuðu eftir að bát þeirra hvolfdi út af ströndum Líbíu. Vísir/EPA
Meðal þess sem leiðtogar Evrópusambandsríkjanna ákváðu á neyðarfundi sínum í Brussel í gær var að láta undirbúa hernaðaraðgerðir gegn þeim, sem stunda smygl á flóttafólki yfir Miðjarðarhafið til Evrópu.

Leiðtogarnir hyggjast einnig þrefalda það fjármagn, sem sett hefur verið í björgunar- og leitaraðgerðir í Miðjarðarhafinu. Þá er meiningin að létta að nokkru álaginu af þeim Miðjarðarhafsríkjum Evrópusambandsins, sem fengið hafa flesta flóttamenn til sín. Þetta verði gert með því að önnur aðildarríki ESB bjóðist til þess að taka við nokkur þúsund flóttamönnum.

Áhersla verður lögð á að draga úr flóttamannastraumnum ásamt því að reyna að koma sem flestum þeirra, sem komist hafa yfir til Evrópu, aftur til síns heima.

Evrópusambandið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að bregðast seint og illa við vandanum, með þeim afleiðingum að þúsundir manna hafa drukknað í Miðjarðarhafinu. Meira en 35 þúsund manns hafa reynt að fara yfir Miðjarðhafið það sem af er árinu, og þar af hafa hátt á annað þúsund manns drukknað.

Meðan á þessum fundarhöldum stóð voru 24 flóttamenn bornir til grafar á Möltu. Fólkið lét lífið þegar bát hvolfdi undan ströndum Líbíu nýverið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×