Íslenski boltinn

Hermann: Þurftum að ná þessum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson á Flórídana-vellinum skrifar
Hermann fylgist með á hliðarlínunni í kvöld.
Hermann fylgist með á hliðarlínunni í kvöld. vísir/eyþór
„Maður var næstum því búinn að gleyma hvernig þetta er,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, eftir fyrsta sigur hans manna í Pepsi-deildinni í ár.

„Ég held að hver einasti leikmaður hafi lést um 50 kg, það er smá byrði farin en þetta var alltaf á leiðinni.“

Fyrir leikinn gegn Víkingi í kvöld höfðu Fylkismenn tapað nokkrum jöfnum leikjum í sumar. En hvað breyttist í þessum leik?

„Við náðum að klára leikinn, héldum einbeitingu og ég fann það í vikunni að það var neisti í okkur. Við höfum allir gríðarlega trú á því að sigurinn myndi koma,“ sagði Hermann sem var ánægður með þátt þeirra sem komu inn á í liði Fylkis í kvöld.

„Það þurfti ferskar lappir inn og varamennirnir komu allir mjög sterkir inn. Það er mjög gaman þegar menn koma inn og breyta gangi leiksins.“

Fylkismenn eru nú aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti og eiga leik gegn Val í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins á sunnudaginn kemur. Það er því aðeins bjartara yfir mönnum í Árbænum eftir þennan fyrsta sigur.

„Við þurftum bara að ná þessum sigri. Það er einmanalegt á botninum en þú skapar þér þína eigin heppni. Við höfum alltaf trú á því að við vinnum hvern einasta leik. Og við vissum ef að við myndum gera hlutina rétt myndi styttast í sigurinn,“ sagði Hermann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×