Erlent

Herja á ISIS suður af Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Írakskir hermenn sóttu fram gegn Íslamska ríkinu suður af borginni Mosul í nótt. Þeir voru studdir af loftárásum Bandaríkjanna, en bandamenn þeirra herja nú á ISIS á nokkrum víglínum í Írak og Sýrlandi. Mosul féll í hendur ISIS í leiftursókn þeirra sumarið 2014 en hún var önnur stærsta borg landsins og hefur verið helsta vígi samtakanna í Írak. 

Íslamska ríkið er nú á undanhaldi víða í báðum löndum en fjölmargir hópar sækja fram gegn þeim.

Írakski herinn náði í nótt þorpinu Kharaib Jabr úr höndum ISIS, en samkvæmt Reuters fréttaveitunni flúðu vígamenn samtakanna frá þorpinu. Herinn og aðrar sveitir hliðhollar stjórnvöldum í Baghdad sækja einnig fram gegn ISIS í Fallujah.

Aðgerðirnar nærri Mosul eru liður í áætlun stjórnvalda að endurheimta borgina, en sókn hersins hefur gengið hægt. Yfirmaður hersins á svæðinu segir sveitir sínar ekki búa yfir nægilega mörgum skriðdrekum og hermönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×