Erlent

Herinn tók öll völd

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fjöldi manns safnaðist saman fyrir utan höfuðstöðvar hersins í Ougadougou og krafðist þess að herinn tæki völd.
Fjöldi manns safnaðist saman fyrir utan höfuðstöðvar hersins í Ougadougou og krafðist þess að herinn tæki völd. Vísir/AFP
Honoré Traoré herforingi er tekinn við völdum í Búrkína Fasó. Blaise Compaoré forseti sá sér ekki annað fært en að láta af embætti eftir fjölmenn og áköf mótmæli undanfarna daga. Stefnt er á kosningar innan þriggja mánaða. Mótmælendurnir, sem kveiktu meðal annars í þinghúsinu í höfuðborginni Ougadougou, sættu sig ekki við annað en að forsetinn segði tafarlaust af sér.

Hann hafði annars hugsað sér að bjóða sig fram einu sinni enn, en hann hafði setið í embættinu í 27 ár og mátti samkvæmt stjórnarskrá landsins ekki sitja í fleiri kjörtímabil. Þessu hugðist hann breyta, en stjórnarandstæðingar höfðu mánuðum saman skorað á hann að láta sér nægja að sitja út þetta kjörtímabil, hið fimmta í röðinni. Upp úr sauð á fimmtudaginn þegar Compaoré ætlaði að láta þingið greiða atkvæði um stjórnarskrárbreytingu, sem myndi heimila honum að sitja lengur. Sjálfur segist hann hafa ákveðið að láta undan til að tryggja frið í landinu.

„Hvað mig sjálfan varðar, þá tel ég mig hafa gert skyldu mína,“ sagði hann í gær. „Ég lýsi því yfir að ég afsala mér völdum til þess að efna til frjálsra og gagnsærra kosninga eftir 90 daga,“ sagði hann í gær.

Compaoré hefur á seinni árum notið nokkurrar virðingar fyrir sáttastörf og inngrip í alvarlegar innanríkisdeilur í nokkrum Afríkuríkjum. Hann hefur hins vegar verið sakaður um að hafa stutt uppreisnarsveitir á Fílabeinsströndinni og í Angóla, auk þess sem hann studdi Charles Taylor, hinn herskáa uppreisnarmann í Líberíu sem náði þar völdum en situr nú sakaður um stríðsglæpi í fangelsi Alþjóðasakadómstólsins í Haag.

Heima fyrir hefur hann hins vegar haldið niðri allri stjórnarandstöðu. Hann hélt velli þrátt fyrir fjölmenn mótmæli og uppreisn innan hersins árið 2011. Á tímabili réðust hermenn inn í forsetahöllina, þannig að Compaoré þurfti að flýja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×