Erlent

Herflugvél hrapaði í Indónesíu

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
113 manns voru í vélinni og eru þeir allir taldir af.
113 manns voru í vélinni og eru þeir allir taldir af. nordicphotos/afp
Óttast er að fleiri en hundrað manns hafi látið lífið í Indónesíu eftir að herflugvél hrapaði í íbúðahverfi í borginni Medan. Sextíu og sex lík hafa nú fundist. Frá þessu greinir BBC.

Flugvélin sem var af gerðinni Herkúles C-130 skall á tveimur íbúðabyggingum og hóteli áður en hún sprakk í loft upp. Talsmenn flughersins segja að 113 manns hafi verið um borð í vélinni en talið er að enginn hafi lifað af. Þá er fjöldi fólks fastur inni í byggingunum sem flugvélin skall á.

Mikill eldur kom upp þegar vélin hrapaði á byggingarnar og börðust viðbragðsaðilar við eldinn í þó nokkurn tíma, en svartur þykkur reykur gerði þeim erfitt fyrir. Þá skemmdist fjöldi húsa í nágrenninu.

Vélin, sem talsmenn hersins segja að hafi verið í góðu standi, hringsólaði yfir borginni í nokkurn tíma áður en hún hrapaði. Flugmaður vélarinnar hafði óskað eftir að fá að lenda henni á nærliggjandi flugvelli vegna vélarbilunar. Ekki hefur enn fengist staðfest hvað olli slysinu.

Fjöldi fólks safnaðist saman til að fylgjast með björgunaraðgerðum en einungis stél vélarinnar er eftir, aðrir hlutar hennar sprungu í loft upp.

Þetta er í annað sinn sem flugvél hrapar í Medan en árið 2005 hrapaði Boeing á íbúðabyggð í borginni með þeim afleiðingum að um 200 manns létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×