Viðskipti innlent

Hér sést þota Loftleiða lenda á Suðurskautinu

Kristján Már Unnarsson skrifar

Íslendingar mörkuðu þáttaskil í flugsögunni í gær þegar Boeing 757-þota lenti á íshellu á Suðurskautinu. Þetta er fyrsta farþegaflug þotu í atvinnuskyni á þennan afskekktasta stað jarðar.

Vélinni var flogið frá borginni Punta Arenas í Chile og áfangastaðurinn var gegnfrosin mörghundruð metra þykk íshella á stað sem kallast Union Glacier, en flugtíminn er um fjórar og hálf klukkustund. Myndskeiðin af lendingunni, sem sýnd voru í fréttum Stöðvar 2, fengum við frá flugstjóranum, August Håkansson, og ferðaskrifstofunni Antarctic Logistics & Expeditions, sem leigir þotuna af Loftleiðum, dótturfélagi Icelandair.

Hér má sjá innréttingu vélarinnar.Vísir/Pjetur

Áður en lent var með farþega fóru flugmenn Icelandair í reynsluferð til að prófa þessa óvenjulegu flugbraut. Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Loftleiða Icelandic, segir að brautin sé gegnheill mörghundruð metra þykkur ís. Kuldinn sé nægilegur til að brautin sé stöm þannig að bremsuskilyrði séu fullnægjandi og gekk lendingin að óskum.

Sjá einnig: Brutu blað í flugsögunni: Íslensk áhöfn lenti Boeing-þotu á Suðurskautslandinu 

Þotan er með lúxusinnréttingu fyrir 62 farþega og er gert ráð fyrir að hún fari fjórar til fimm ferðir á Suðurskautið með efnað fólk í ævintýraleit. Það klífi þar fjöll, skoði náttúruna og hlaupi meira að segja Suðurskautsmaraþonið.

Með þessari lendingu ná Lofleiðir því að vera með starfsemi í sjö heimsálfum á þessu ári og nefnir Erlendur Ástralíu, Papúa Nýju-Gíneu, Síerra Leóne, Frakkland, Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og núna á Suðurskautið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×