Enski boltinn

Hér mun Liverpool æfa í framtíðinni | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vill að aðalliðið æfi nálægt knattspyrnuakademíu félagsins og nú verður honum að ósk sinni.

Liverpool hefur æft á Melwood-æfingasvæðinu síðan á sjötta áratugnum en nú lítur út fyrir það að leikmenn Liverpool æfi í framtíðinni á nýju glæsilegu æfingasvæði í Kirkby.

Knattspyrnuakademía Liverpool hefur haft aðsetur í Kirkby sem er í um átta kílómetra fjarlægð frá Melwood. Klopp hefur fundið að þessu eftir að hann tók við Liverpool-liðinu og menn þar á bæ hafa verið að leita að góðri lausn. Nú er hún fundin.

Jürgen Klopp veit að samskipti stjarna liðsins í dags og stjarna morgundagsins er bara af hinu góða og nauðsynleg til að rækta upp hinn sanna Liverpool-anda meðal allra leikmanna félagsins.

Nú ætlar Liverpool að henda 50 milljónum punda í það að gera upp Kirby-æfingasvæðið með það markmið að búa til aðstöðu fyrir bæði aðalliðið og akademíuna.

Samkvæmt frétt hjá Liverpool Echo þá mun Liverpool kaupa land í nágrenninu og stækka Kirby svæðið talsvert.  Þetta er þó ekki alveg gengið í gegn því Liverpool þarf samþykki frá borgaryfirvöldum í Liverpool.

KSS-fyrirtækið mun sjá um hönnun svæðisins en menn þar á bæ hafa unnið við Ólympíuleikvanginn í London, við Twickenham-leikvanginn, við Stamford Bridge og nýja æfingasvæði Tottenham. Þarna fara því menn með mikla reynslu.

Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar og myndir af svæðinu frá fésbókarsíðu Liverpool. Eins er hægt að lesa meira hér.  Fyrir ofan eru myndir frá æfingu Liverpool-liðsins í vikunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×