Erlent

Hentu tólf flóttamönnum fyrir borð

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
600 flóttamenn komu til Sikileyjar í gær.
600 flóttamenn komu til Sikileyjar í gær. vísir/AFP
Lögreglan á Ítalíu handtók fimmtán múslimska flóttamenn í gær eftir ásakanir um að þeir hefðu fleygt tólf kristnum flóttamönnum fyrir borð á bát sem siglt var yfir Miðjarðarhafið. Þetta kemur fram á vef BBC.

Til átaka á að hafa komið á milli múslima og kristinna manna á bátnum sem endaði með ódæðinu. Talið er að allir mennirnir sem var hent fyrir borð séu látnir.

Þá fórust fleiri en 40 flóttamenn í gær þegar gúmmíbátur þeirra sökk eftir að hafa siglt frá Líbíu.

Fáeinir eftirlifendur greindu lögreglunni á Ítalíu frá því að í bátnum hefðu verið 45 manns frá nokkrum Afríkuríkjum. Ítalski sjóherinn bjargaði þeim ásamt rúmlega 600 öðrum flóttamönnum úr öðrum bátum og kom þeim fyrir á Sikiley í gær.

Talið er að um 500 flóttamenn hafa farist á Miðjarðarhafi það sem af er árinu en fyrr í vikunni hvolfdi bát með 400 flóttamönnum. Tíu þúsund flóttamönnum hefur verið bjargað á Miðjarðarhafi undanfarna daga en ítölsk yfirvöld kalla eftir aukinni aðstoð frá Evrópusambandinu til að taka á vandanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×