Enski boltinn

Henry vill starfið hans Wengers

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thierry Henry og Arsene Wenger eru miklir vinir.
Thierry Henry og Arsene Wenger eru miklir vinir. vísir/getty
Thierry Henry vill einn daginn verða knattspyrnustjóri Arsenal og mun stökkva á tækifærið ef Arsene Wenger lætur einhvern tíma af störfum.

Wenger hefur verið mikið gagnrýndur af stuðningsmönnum Arsenal undanfarin ár þó hann hafi aðeins slegið á óánægjuraddirnar með bikarmeistaratitlinum síðasta vor.

Thierry Henry, fyrrverandi framherji Arsenal sem skoraði 174 mörk í 254 úrvalsdeildarleikjum, hefur mikinn áhuga á að verða næsti stjóri liðsins.

„Ég veit ekki hversu lengi Arsene vill halda áfram, en ég vil vera í stöðu til að geta einn daginn tekið við starfinu,“ sagði Henry í spjallþætti Jonathan Ross.

Henry er kominn aftur til Arsenal og þjálfar yngri flokka hjá félaginu, en hann lagði skóna á hilluna sem leikmaður New York Red Bulls í desember.

„Það er draumur minn að verða knattspyrnustjóri Arsenal. En í fullri hreinskilni þarf ég að læra á starfið fyrst. Það er mikilvægast. Ég mun aldrei segja nei við Arsenal þannig ef starfið býðst þá mun ég segja já,“ sagði Thierry Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×