Fótbolti

Henry nýr aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Henry sá um að draga í Meistaradeild Evrópu í gær.
Henry sá um að draga í Meistaradeild Evrópu í gær. vísir/getty
Roberto Martínez hefur ráðið Thierry Henry sem aðstoðarþjálfara sinn hjá belgíska landsliðinu.

Henry, sem er 39 ára, lagði skóna á hilluna í desember 2014 og hefur síðan þá starfað sem sparkspekingur í sjónvarpi auk þess að þjálfa U-18 ára lið Arsenal.

Henry hætti í starfi sínu hjá Arsenal í síðasta mánuði eftir að Arsene Wenger, knattspyrnustjóri liðsins, tjáði honum að hann gæti ekki haldið áfram að þjálfa nema hann hætti í sjónvarpinu.

Henry er einn besti leikmaður sinnar kynslóðar en hann lék lengst af með Arsenal og varð tvívegis enskur meistari með Skyttunum. Þá vann Henry þrennuna með Barcelona tímabilið 2008-09.

Henry varð heims- og Evrópumeistari með franska landsliðinu en hann er markahæsti leikmaður í sögu þess.

Martínez tók við sem landsliðsþjálfari Belgíu af Marc Wilmots eftir EM í Frakklandi í sumar þar sem Belgar féllu úr leik fyrir Walesverjum í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×