Erlent

Henry Bolton lætur af embætti formanns Breska Sjálfstæðisflokksins

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Bolton var kosinn formaður flokksins eftir slæmt gengi í síðustu þingkosningum.
Bolton var kosinn formaður flokksins eftir slæmt gengi í síðustu þingkosningum. Vísir/AFP
Henry Bolton, formaður Breska Sjálfstæðisflokksins UKIP, lætur af embætti eftir að flokksmeðlimir kusu hann úr embætti í dag.

Stjórn flokksins lýsti yfir vantrausti á formanninn í janúar eftir að fyrrverandi kærasta hans lét fordómafull ummæli falla um Meghan Markle, unnustu Harry Bretaprins. Bolton hætti með kærustu sinni eftir að hún hafði sent textaskilaboð þar sem hún lýsti þeirri skoðun að svart fólk væri ljótt og að Meghan Markle myndi „menga“ bresku konungsfjölskylduna.

Bolton sagðist í janúar ætla að halda áfram sem leiðtogi vegna þess að formannsslagur væri óheppilegur fyrir stöðu flokksins.

Meðlimir UKIP kusu í dag um hvort Bolton yrði áfram leiðtogi flokksins en 63% flokksmeðlima studdu vantrauststillögu stjórnarinnar.

Bolton tók við formennsku í UKIP í september á síðasta ári og varð hann þá fjórði leiðtogi þeirra á síðustu átján mánuðum. Samkvæmt lögum flokksins skal kjósa nýjan formann innan næstu 90 daga. Óljóst er hver verður starfandi formaður næstu vikurnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×