Fótbolti

Henderson og Alli vildu fleiri mörk

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Henderson og Alli fagna öðru marki Englands í dag
Henderson og Alli fagna öðru marki Englands í dag vísir/getty
Jordan Henderson lagði upp bæði mörk Englands gegn Möltu í undankeppni HM í dag en var svekktur að England nýtti ekki yfirburði sína og vann stærri sigur.

„Við fengum nógu mörg færi í leiknum til að skora fleiri mörk. Það eru vonbrigði leiksins, að við skoruðum ekki fleiri mörk,“ sagði Henderson sem lék stórt hlutverk í báðum mörkum Englands í 2-0 sigrinum í dag.

„Við urðum værukærir undir lok leiksins og við þurfum að vinna í því en það var gott að fá þrjú stig.“

Henderson hrósaði félaga sínum Dele Alli sem skoraði seinna mark Englands í dag. Alli fékk sendingu frá Henderson en þurfti tvær skottilraunir til að koma boltanum í markið.

„Það er fullkomið fyrir Dele að leika í tíunni. Við (Wayne) Rooney þurfum að koma boltanum fram og vernda vörnina þegar við töpum boltanum,“ sagði Henderson.

Dela Alli var ánægður með markið sem hann skoraði en hefði líkt og Henderson viljað sjá enska liðið vinna stærri sigur.

„Ég vil taka hlaupin inn í teig og skora mörk og leggja upp. Færin voru þarna en við þurfum að nýta þau betur,“ sagði Alli.

Gareth Southate stýrði enska liðinu í fyrsta sinn og var Alli ánægður með þjálfarann.

„Gareth Southgate er frábær knattspyrnustjóri sem þekkir minn leik. Hann sagði mér að leika eins og ég geri best og við lékum allir vel. Við héldum boltanum vel og stjórnuðum leiknum frá upphafi til enda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×