Enski boltinn

Henderson búinn að taka upp sama ávana og Gerrard sem Carragher hatar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jordan Henderson fékk fleira en fyrirliðabandið frá Steven Gerrard.
Jordan Henderson fékk fleira en fyrirliðabandið frá Steven Gerrard. vísir/getty
Jordan Henderson, fyrirliði Liverppol, er búinn að taka upp sama slæma ávana og Steven Gerrard glímdi við þegar hann spilaði með Liverpool en það er ávani sem Jamie Carragher, fyrrverandi miðvörður liðsins, hataði í fari Gerrard.

Carragher, sem starfar nú sem sparkspekingur Sky Sports, greindi leik Bournemouth og Liverpool í Monday Night Football í gærkvöldi en Bournemouth kom til baka eftir að lenda 3-1 undir og vann, 4-3, með því að skora þrjú mörk á síðasta korterinu.

Carragher gagnrýndi sérstaklega það sem gerðist eftir að Bournemouth minnkaði muninn í 3-2 á 76. mínútu. Liverpool tók miðju en missti boltann frekar snemma sem keyrði upp lætin í stúkunni. Skömmu síðar fengu heimamenn aukaspyrnu og upp úr henni jöfnuðu þeir. Þarna klikkaði fyrirliðinn Henderson að mati Carragher.

„Sjáið hvað gerist þegar að þeir taka miðjuna. Dómarinn flautar leikinn á en verið bara rólegir. Það þarf ekki að taka miðjuna um leið og hann flautar. Róið þetta niður,“ sagði Carragher er hann fór yfir myndir af leiknum.

„Gefið boltann aftur á miðvörðinn og sendið nokkrar sendingar á milli manna. Það er það sem þeir áttu að gera því sumir leikmenn eru ekki komnir í stöðu. Divock Origi gefur boltann of fljótt og Bournemouth mætir í pressuna. Boltinn fer beint á Jordan Henderson sem gefur hann á Milner sem er pressaður og þá grípur örvænting um sig.“

„Milner gefur boltann út af og það kveikir í stúkunni. Þrjátíu sekúndum seinna hleypur Lovren út úr vörninni og brýtur af sér. Uppi varð fótur og fit og í staðinn fyrir að halda sinni stöðu eins og hann hefði gert ef staðan væri 0-0 drífur Henderson sig í varnarlínuna. Þetta er eitthvað sem Steven Gerrard gerði stundum og ég hataði það,“ sagði Jamie Carragher.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×