Erlent

Helmingur ungra kvenna veit ekki hvar leggöngin eru

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hér má sjá hvar leggöng kvenna eru.
Hér má sjá hvar leggöng kvenna eru.
Nýleg könnun sem gerð var í Bretlandi á vegum samtakanna Eve Appeal leiðir í ljós að helmingur kvenna á aldrinum 26 til 35 ára vita ekki hvar leggöngin eru á mynd. Um 65% kvennanna finnst einnig erfitt að kalla leggöngin og skapabarmana sínum réttu nöfnum. Vísa þær frekar til "kvenlega hlutans". 

Könnunin var gerð í tilefni af átaki í Bretlandi sem beinir sjónum sínum að krabbameini sem greinist í kynfærum og er að nokkru leyti sambærilegt við átakið Bleiku slaufuna sem Krabbameinsfélag Íslands stendur fyrir í október ár hvert.

Niðurstöður könnunarinnar valda áhyggjum þar sem skömm og feimni hafa leitt til þess að ungar konur leita sér ekki læknishjálpar ef þær verða varar við breytingar eða óþægindi á kynfærasvæðinu. Þær þekkja einkenni krabbameins einnig illa sem getur haft í för með sér að krabbamein greinist síður. Eitt af markmiðum átaksins í Bretlandi er því fá konur til að tala á opinskárri hátt um kynfæri sín og það ef eitthvað er að hrjá þær, sem og að kynna enn betur fyrir þeim einkenni krabbameins sem greinist í konum. 



Uppfært: Í upphafi var sagt frá því að ungar konur vissu ekki hvar sín eigin leggöng væru; hið rétta er að þær gátu ekki bent á þau á mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×