Innlent

Helmingur ánægður með umboðsmann skuldara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá blaðamannafundi: Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, og Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi
Frá blaðamannafundi: Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, og Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Vísir/Stefán
Helmingur þeirra sem hafa leitað til umboðsmanns skuldara er ánægður með þjónustuna sem embættið veitir. Þetta kom fram á blaðamannafundi í morgun þar sem ný þjónustukönnun embættisins var kynnt.

Embætti umboðsmanns skuldara var stofnað árið 2010 og býður upp á úrræði fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum. Einstaklingar geta fengið ókeypis fjármálaráðgjöf og farið í gegnum greiðsluaðlögun sé umsókn þeirra um slíkt samþykkt.

Niðurstöður þjónustukönnunarinnar sýna að þeir sem enn eru með mál í vinnslu hjá umboðsmanni skuldara eða hafa fengið úrlausn sinna mála eru almennt ánægðari en þeir sem fengu synjun hjá embættinu eða afturkölluðu umsókn sína.  

Könnunin sýnir jafnframt að konur eru almennt ánægðari en karlar með þjónustuna og að tekjulágir eru frekar ánægðari en þeir sem eru tekjuhærri.

Helmingur aðspurðra segist líða betur eftir að hafa leitað til umboðsmanns skuldara og líður þeim sem hafa lokið greiðsluaðlögun betur en þeim sem hafa þegið ráðgjöf.

Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu könnuninni, eða 74%,  segir viðmót starfsfólks embættisins mjög eða fremur gott.

Könnunin var unnin í maí og júní sl. af fyrirtækinu Maskínu. Hún var send til 1.666 einstaklinga sem sótt höfðu um eða lokið greiðsluaðlögun á síðustu fjórum árum, bæði til þeirra sem höfðu fengið samþykki eða synjun á umsókn sinni. Svarhlutfall var 50.4%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×