Innlent

Helmingi fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi eftir að vinnulagi var breytt

Sveinn Arnarsson og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
Pallborðsumræður voru eftir erindin þar sem meðal annars var rætt hvort vantaði betri úrræði fyrir börn sem höfðu upplifað heimilisofbeldi.
Pallborðsumræður voru eftir erindin þar sem meðal annars var rætt hvort vantaði betri úrræði fyrir börn sem höfðu upplifað heimilisofbeldi. Fréttablaðið/Valli
Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað um rúman helming á höfuðborgarsvæðinu eftir að lögregla og félagsþjónusta fóru að vinna eftir nýrri nálgun í málaflokknum.

„Að hluta til held ég að aukningin sé breyting og bæting á skráningu heimilisofbeldis, vonandi vegna aukinnar tiltrúar á verklagi og auknu trausti til lögreglunnar í þessum málum,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Fjallað var um ofbeldi inni á heimilum á morgunverðarþinginu Náum áttum í gær. Alda Hrönn kynnti þar nýja nálgun lögreglu og félagsþjónustu í heimilisofbeldismálum.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, tekur undir með Öldu Hrönn um ástæður aukningar tilkynninga um ofbeldi. „Aukning tilvika orsakast líklega bæði af meiri tiltrú á lögregluna sem og að umræðan vekur fólk til umhugsunar,“ segir hún.

Aukin tiltrú á lögreglu hafi áhrif bæði á þolendur ofbeldisins og nágranna og ættingja, sem tilkynni líka ofbeldi. „Það eru fleiri en þolendur einir sem tilkynna,“ segir hún.

Reykjavíkurborg lagði aukalega fram 50 milljónir króna í sérstakt átak gegn heimilisofbeldi sem hófst í byrjun þessa árs og er samstarfsverkefni lögreglu og velferðarsviðs borgarinnar.

Verkefnið byggir á reynslu lögreglunnar á Suðurnesjum. Í máli Öldu kom fram að frá því að verkefnið fór í gang hefði tilkynningum vegna heimilisofbeldis fjölgað mjög.

Kristín Ástgeirsdóttir
Á fyrsta mánuði hefði komið upp 51 mál en að meðaltali hefðu þau verið kringum tuttugu á mánuði 2014.

Alda segir strax hafa sýnt sig að þörfin væri mikil, en ekkert benti þó til að meira sé um heimilisofbeldi en verið hafi.

Einnig héldu erindi Margrét Ólafsdóttir aðjunkt og Ingibjörg H. Harðardóttir lektor um rannsókn sína þar sem rætt var við níu börn á aldrinum 9 til 14 ára, sem orðið höfðu fyrir ofbeldi á heimili, og mæður þeirra.

Þær segja fjórðung skólabarna þekkja einhvern sem hefur orðið fyrir ofbeldi heima hjá sér. Börnin upplifðu að andlega ofbeldið væri verst og vildu gjarnan að hægt væri að leita hjálpar í skólanum, þótt þau teldu hann einnig vera griðastað frá ofbeldinu. 

Á fundinum lýstu nokkrir áhyggjum af því að úrræði vantaði fyrir börn. Í pallborðsumræðum sagði Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur ekki næga vitneskju um áhrif heimilisofbeldis á börn. Hann vitnaði í bandarískan sálfræðing sem sagt hafði líðan barna sem lent hefðu í slíku ofbeldi sambærilega við líðan barna á stríðssvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×