Innlent

Helmingi færri þurfa nú aðstoð bæjarins

Svavar Hávarðsson skrifar
Mikil uppbygging er hafin í Helguvík sem styrkir atvinnumöguleika á Suðurnesjum.
Mikil uppbygging er hafin í Helguvík sem styrkir atvinnumöguleika á Suðurnesjum. vísir/vilhelm
Rúmlega helmingi færri einstaklingar eða fjölskyldur þáðu fjárhagsaðstoð vegna framfærslu frá Reykjanesbæ fyrstu mánuði þessa árs en á sama tímabili árið 2014. Þetta kemur fram í tölum frá velferðarsviði bæjarins.

„Á milli áranna 2014 og 2015 fækkaði verulega í hópi þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem fengu fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Þegar mest var í mars 2014 voru 240 einstaklingar eða fjölskyldur sem fengu greidda fjárhagsaðstoð, í mars 2015 voru 166 sem þáðu aðstoð og 128 í mars 2016. Í apríl 2016 var fjöldinn kominn niður í 116,“ segir Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri virkniteymis hjá Reykjanesbæ.

Bjarney rekur þennan góða árangur til breytinga á verklagi við vinnslu umsókna strax í upphafi. Aukin áhersla var lögð á að koma umsóknum í réttan farveg sem fyrst, greina aðstæður skjólstæðinga betur og finna þeim viðeigandi úrræði. Gerðar voru auknar kröfur um þátttöku í virkniúrræðum og samvinna við stofnanir varðandi veikindi, endurhæfingu og atvinnuþátttöku skjólstæðinga var efld.

Bjarney Rós Guðmundsdóttir
Að sögn Bjarneyjar tók atvinnumarkaðurinn á Suðurnesjum stakkaskiptum á fyrri hluta síðasta árs. „Það hefur skipt miklu máli fyrir þá einstaklinga sem áður þáðu fjárhagsaðstoð en voru með fulla vinnufærni. Við höfum séð mikla breytingu á samsetningu hópsins. Áður var stærsti hópurinn sem þáði fjárhagsaðstoð vinnufærir einstaklingar en í dag er uppistaða hópsins að stærstum hluta óvinnufærir. Helstu hindranir sem við stöndum frammi fyrir með þann hóp er hversu erfitt er að fá þjónustu heilbrigðisstofnana og langur afgreiðslutími umsókna hjá Tryggingastofnun ríkisins.“

Þegar tölur um atvinnuleysi eru gaumgæfðar sést sá umsnúningur sem Bjarney lýsir vel. Atvinnuleysi dróst mikið saman árið 2015 og var núna í apríl 2,6 prósent. Allt útlit er fyrir að skortur verði á starfsfólki í ýmis störf síðar á þessu ári. Þessi staða er þeim mun merkilegri ef staðan strax eftir hrunið er sett í samhengi – atvinnuástandið var þar langverst og atvinnuleysisprósentan fór hæst í tæp 15 prósent árið 2009.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×