Innlent

Hellisheiði og Þrengslin lokuð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vegurinn um Sandskeið er einnig lokaður sem og Lyngdalsheiðin.
Vegurinn um Sandskeið er einnig lokaður sem og Lyngdalsheiðin. Vísir/Vilhelm
Búið er að loka Hellisheiði, Þrengslum, Sandskeiði og Lyngdalsheiði. Þá er einnig lokað um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu.

Holtavörðuheiði er opin en þar er krap og snjóþekja. Þæfingsfærð er á Bröttubrekku en þar er stórhríð. Ófært er á Fróðárheiði og hálka og skafrenningur í Svínadal. Á öðrum vegum á Vesturlandi eru hálka og hálkublettir og eitthvað um snjókomu eða éljagang.

Á Vestfjörðum er ófært á fjallvegum til Flateyrar og Suðureyrar. Þungfært er á Kleifaheiði. Súðavíkurhlíð og Raknadalshlíð eru lokaðar. Þungfært er í Ísafjarðardjúpi og einnig er orðið þungfært og stórhríð á Hjallahálsi. Þæfingsfærð er í Dýrafirði með snjókomu.

Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja og víða er skafrenningur eða éljagangur.

Hálka og snjóþekja er á Austurlandi og snjóþekja víða. Með suðausturströndinni er hálka, snjóþekja, hálkublettir og éljagangur.

Snjóþekja og hálka er á vegum á Suðurlandi.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Norðvestan 13-23 metrar á sekúndu víða um land í kvöld og þá snjókoma eða él norðan til, en þurrt syðra. Hægari vindur norðaustan til. Kólnandi veður. Lægir í nótt og fyrramálið. Norðlæg átt, 5-13 metrar á sekúndu um hádegi á morgun og dálítil él um landið norðanvert, annars bjart á köflum. Bætir í vind og ofankomu á Vestfjörðum og suðaustanlands annað kvöld. Frost 0 til 6 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×