Körfubolti

Helgi Jónas samdi við mennina sem börðu hann ávallt í spað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Jónas Guðfinnsson gerði Grindvíkinga að Íslandsmeisturum þegar hann þjálfaði síðast árið 2012.
Helgi Jónas Guðfinnsson gerði Grindvíkinga að Íslandsmeisturum þegar hann þjálfaði síðast árið 2012. Vísir/Stefán
Helgi Jónas Guðfinnsson kom mörgum á óvart þegar hann hætti með Íslandsmeistaralið Grindavíkur fyrir tveimur árum og þeir hinir sömu voru líka hissa í gær þegar þeir heyrðu að hann væri orðinn þjálfari erkifjendanna úr Keflavík. Helgi Jónas gerði tveggja ára samning við Keflavík í gær og tekur við liðinu af Andy Johnston.

„Þetta er stórt skref og ég er með þessu að fara svolítið út fyrir þægindarammann því ég þjálfaði áður Grindavík í þó nokkuð vernduðu umhverfi,“ sagði Helgi Jónas í gær.

„Þegar ég var að tala við Keflvíkingana þá var gaman að segja frá því að þá sat ég á móti Fali Harðar, Gauja Skúla og Alberti Óskars, allt menn sem voru búnir að berja mig í spað á sínum tíma og vinna mig hægri, vinstri. Ég er þakklátur fyrir að þeir sýni mér þetta traust,“ segir Helgi Jónas í léttum tón.

Hann hætti óvænt fyrir tveimur árum en hvað hefur breyst? „Það var tvennt í því. Ég var að standsetja fyrirtæki sem tók sinn tíma og ég vildi einbeita mér að því. Svo var annað meira persónulegt sem ég var að velta fyrir mér. Eitt af því var hvort þjálfunin væri eitthvað sem ég vildi gera. Ég var ekki alveg hundrað prósent viss um það,“ segir Helgi Jónas.

„Það er alveg skiljanlegt að fólk verði hissa og að einhverjum svíði að sjá mig með Keflavík en það er bara þannig. Ég er ekki að fara að þjálfa Grindavík næstu tvö árin þar sem Sverrir er með samning við þá. Mér gafst þetta tækifæri núna og ég veit ekkert hvort ég fæ annað tækifæri til að þjálfa. Það gæti komið seint og jafnvel aldrei. Þetta er krefjandi verkefni og stór áskorun. Ég hlakka bara til,“ segir Helgi Jónas Guðfinnsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×