Innlent

Helgi Hrafn svarar Ásmundi: „Þetta snýst um trúboð og ekkert annað“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Af hverju er það til of mikils ætlast, að fólk sem vilji að börnin sín sæti trúboði, fari einfaldlega sjálft með börn sín í trúboðið?“ spyr Helgi Hrafn.
"Af hverju er það til of mikils ætlast, að fólk sem vilji að börnin sín sæti trúboði, fari einfaldlega sjálft með börn sín í trúboðið?“ spyr Helgi Hrafn. Vísir/GVA
„Hvers vegna telur kristnin sig, ein allra trúarbragða á Íslandi, þurfa að blanda sér í lögbundna skólaskyldu til að breiða út sína trú? Ef trúin er svo mikilvæg og jákvæð, þá ætti hún ekki að eiga í neinum vandræðum með að fá til sín börn í heimsókn án þess að hengja sig í lögbundna skyldu foreldra til að setja börn sín í skóla, heldur gæti gert það á eigin forsendum og undir eigin formerkjum.“

Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson pírati í athugasemd sem hann skrifar í tilefni skrifa Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í tengslum við kirkjuheimsóknir grunnskólanemenda á aðventunni.

Ásmundur Friðriksson hefur sterkar skoðanir á kirkjuheimsóknum grunnskólabarna.Vísir/Vilhelm
Ásmundur segir það skipta miklu máli að fólk fái að heyra guðsorð. Guðsorðið og jólin séu grundvöllur kristinnar trúar og engum hafi orðið meint af.

„Sjálfur var ég alinn upp í góðri guðstrú, skírður, fermdur og gifti mig fyrir framan altari guðs og hef ekki skaðast af því. Ég veit ekki til þess að neinn hafi skaðast af því að fá að heyra guðsorð eða fengið nýja testamentið að gjöf,“ segir Ásmundur. „Með þessu er ég ekki að gera lítið úr trú annarra. Allir hafa gott af því að heyra falleg orð, sama hvaðan þau koma.“

Ásmundur Friðriksson segir það skipta miklu máli að standa vörð um kristna trú. „Ég er aðeins með þessu að vekja athygli á því hversu mikilvægt það sé að hin kristnu gildi, sem samfélagið hefur byggst upp á síðustu þúsund ár, gleymist ekki. Við megum ekki missa sjónar af stöðu þjóðkirkjunnar,“ segir Ásmundur.

Helgi Hrafn er þeirrar skoðunar að ekki sé boðlegt að neyða foreldra til þess að gera upp á milli þess hvort börnin sæti annaðhvort trúboði eða þau fái á sig einhvers konar „öðruvísi trúar“-stimpil.

„Trú fólks og barna eru einfaldlega einkamál þeirra, og þau rök fyrir kirkjuheimsóknum grunnskólabarna að kristni sé í meirihluta eru nákvæmlega rök gegn því að neyða fólk til að velja þarna á milli, vegna þess að það barn, eða foreldri þess, sem ákveður að barnið sæti ekki trúboði er einmitt alltaf að láta í ljós minnihluta-trúarskoðun.“

Dómkirkjan í Reykjavík.Vísir/GVA
Sennilega sé ekkert sem valdi jafn hratt deilum og trúarlegur ágreiningur.

„Að setja börn í þá stöðu að útskýra fyrir félögum sínum hvers vegna þau fari ekki með þeim í trúboðsferð, eða að öðrum kosti að sæta trúboði í lögbundinni skólaskyldu, er ekki boðlegt val, hvorki fyrir barnið né foreldra þess.“

Helgi segir málið ekki snúast um hvort börn heimsæki kirkur eða ekki, en þá eigi að gera það í gegnum sjálft kirkjustarfið. Spyr Helgi hvers vegna það sé svo hræðileg krafa.

„Af hverju er það til of mikils ætlast, að fólk sem vilji að börnin sín sæti trúboði, fari einfaldlega sjálft með börn sín í trúboðið? Hvernig varð það að einhvers konar ánauð fólks að geta ekki misnotað lögbundna skólaskyldu til að dreifa sinni trúarsannfæringu?“

Þetta komi jólaskemmtunum ekkert við. Ekki sé uppi nein krafa um að afnema jólin eða að börnin fái ekki að skemmta sér, hvort sem er að kristnum eða heiðnum sið. Rifjar Helgi upp að jólin séu heiðin, aðlöguð að kristni til að auðvelda upptöku hennar. Meira að segja orðið „jól“ eigi sér heiðinn uppruna. Þetta snúist um trúboð og ekkert annað.

„Grunnskólinn er veraldleg stofnun. Það er sjálfsögð krafa að foreldrar sem vilji börnin sín í kirkju einfaldlega fari með börnin sín í kirkju og hætti að kvarta yfir því að grunnskólakerfið sjái ekki um trúarlegt innræti fyrir sína hönd. Það er einfaldlega ekki hlutverk þess, sama hversu æðisleg kristið fólk telur trúarbrögð sín vera.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×