Fótbolti

Helgi: Við getum unnið alla

Arnar Björnsson í Kabardinka skrifar
Samvinna íslensku þjálfaranna á HM í Rússlandi er til mikillar fyrirmyndar. Þeir vinna vel saman og greinilegt er að það hefur skilað árangri hingað til að minnsta kosti. Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari landsliðsins segir þetta um næstu mótherja okkar, Nígeríu.

„Þeir spila öðruvísi. Í æfingaleiknum við Gana sáum við margt svipað og hjá Nígeríu. Það sem við vitum að leikmennirnir eru gríðarlega fljótir og góðir í skyndisóknum. Það gæti því orðið miklu hættulegra ef við töpum boltanum á móti þeim. Týpurnar af leikmönnum, þeir fara mikið einn á einn og stundum erfitt að reikna þá út," sagði Helgi.

„Maður veit svona þokkalega skipulagið hjá Argentínu. Þegar Messi fær boltann þá veit maður hvað kemur næst, hvaða hlaup hann tekur og hvern á þá að passa. Gegn Nígeríu ertu ekki alveg viss. Þeir eru óútreiknanlegir og eru gríðarlega hættulegir í þessum hlutum líka.“

Það er vinnuregla hjá landsliðinu eftir leik á stórmóti að eyða 24 tímum í að gera upp leikinn sem liðið var að spila áður en menn einbeita sér að næsta mótherja.

Miðað við ykkar undirbúning og plön eru líkur á því að þið breytið byrjunarliðinu frá Argentínuleiknum?

„Það er alveg möguleiki. Við vorum búnir að tala um það fyrirfram hvað myndi henta betur á móti þessum andstæðingi. Erum búnir að spá í það líka, það geta orðið breytingar. Alveg klárlega.“

Þú hefur fulla trú á því að íslenska liðið hafi getu til að vinna Nígeríu?

„Við getum unnið alla. Það er bara þannig. Við trúum alltaf á sjálfa okkur sama hver andstæðingurinn er. Við erum ekkert að fara að vanmeta Nígeríu. Við vitum að lið þeirra er gríðarlega sterkt. Þeir komust líka hingað þannig að þetta verður erfiður leikur eins og allir, þegar þú ert kominn í lokakeppni HM,“ segir Helgi.

Íslenska liðið þurfi að eiga góðan leik og spila upp á sinn styrkleika.

„Það voru margir hlutir í leiknum gegn Argentínu, sem er vanalega okkar styrkur, en kom ekki mikið út úr. Það er alltaf hægt að gera betur og það er okkar að reyna að gera það núna. Þetta verður alls ekki auðveldur leikur“, segir Helgi Kolviðsson brosmildi aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×