Körfubolti

Helgi: Þarf þessa sigra þar sem ég er Knicksari og Arsenalmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon.
Helgi Már Magnússon. Vísir/Vilhelm
Helgi Már Magnússon fór fyrir liði KR í gær sem fagnaði sínum sjöunda sigri í sjö leikjum í vetur með því að vinna Hauka örugglega 93-78.

Helgi Már var með 19 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar í sigrinum og sló meðal annars á létta strengi í viðtali við Jón Björn Ólafsson á karfan.is eftir leikinn.

„Mér fannst við vera aðeins of værukærir eins og við værum á einhverju „cruise control" á tímabili. Við vorum kannski á réttum stað í vörninni en þetta var aðeins of hægt og aðeins of mjúkt"," sagði Helgi Már við Jón Björn eftir leikinn.

„Við erum í góðu standi en mér finnst það þreytandi að hafa tíu daga á milli leikja. Maður vill spila og sem betur fer er næsti leikur á fimmtudaginn. Það er flott og þá sjáum við hvort við séum orðnir of gamlir eða ekki," sagði Helgi í léttum tón.

KR er búið að vinna alla sjö leiki sína til þessa en Helgi kallar samt eftir meiri ákefð í liðinu.

„Það vantar stundum upp á grimmdina í liðinu. Ég vil sjá einn leik hjá okkur þar sem við erum á milljón allan tímann. Það væri ótrúlega gaman og ég er forvitinn að sjá hvernig við lítum út þá. Við erum með reynslumikið lið og förum ekkert að örvænta neitt þótt að lið nái 10-0 spretti á okkur. Það gerist og menn aðalaga sig," sagði Helgi Már.

„Við erum alveg meðvitaðir um það að það þarf ekkert mikið að fara úrskeiðis til að við töpum leik sem yrði svo sem enginn heimsendir. Þar sem ég er nú Knicksari og Arsenalmaður þá þarf ég á þessum sigrum að halda til þess að halda geðheilsunni", sagði Helgi léttur en það má sjá þetta viðtal með því að smella hér.

New York Knicks tapaði á móti Houston Rockets í nótt og hefur tapað 11 af 15 leikjum sínum á leiktíðinni. Arsenal tapaði sínum öðrum leik í röð í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og hefur aðeins náð að vinna 4 af fyrstu 12 leikjum sínum á tímabilinu.

KR vann sinn fyrsta leik af sjö í Dominos-deildinni 9. október síðastliðinn og frá þeim tíma hafa Arsenal og Knicks „bara" unnið sjö leiki samanlagt  í öllum keppnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×