Menning

Helgar gersemar sýndar á Hólum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Það verður örugglega gaman hér á laugardaginn,“ segir séra Solveig Lára á Hólum.
„Það verður örugglega gaman hér á laugardaginn,“ segir séra Solveig Lára á Hólum. Mynd/heiða@heiða.is
„Okkur fannst við hæfi að sýna hið fágæta safn okkar helgu bóka nú þegar Hið íslenska biblíufélag fagnar 200 ára afmæli,“ segir séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, um sýningu sem þar verður opnuð klukkan 14 á laugardaginn.

Bækurnar eru margar hverjar úr safni séra Ragnars Fjalars Lárussonar.

„Séra Ragnar Fjalar var ástríðusafnari og keypti fágætar biblíur víðs vegar um landið og erlendis. Þegar hann féll frá eignaðist ríkisstjórnin þær og gaf Hóladómkirkju árið 2006, þegar biskupsstóllinn varð 900 ára,“ lýsir séra Solveig Lára.

Guðbrandsbiblía, sem fyrst var prentuð á Hólum 1584, verður að sjálfsögðu til sýnis og tvær aðrar úr sömu prentsmiðju; Þorláksbiblía, kennd við Þorlák Skúlason sem tók við biskupsembættinu af Guðbrandi, og Steinsbiblía sem var prentuð 1728. Séra Solveig Lára nefnir líka biblíu Gustavs Vasa, sem var fyrsta sænska biblían, og biblía Kristjáns III, sem var sú fyrsta danska.

„Meðal annars verður til sýnis hið hebreska Gamla testamenti sem Guðbrandur Þorláksson keypti í Þýskalandi og var geymt lengi hér á Hólum þótt enginn þekkti letrið því það er öðruvísi en okkar,“ segir séra Solveig Lára og heldur áfram:

„Til er skemmtileg saga um þvottakonur sem voru að þvo hér við lækinn og hituðu vatnið yfir eldi, þeim datt í hug að setja þessa bók á eldinn, þar sem enginn skildi hvort eð er það sem í henni stæði en þá kom einhver sem varð bókinni til bjargar.

Talið er að Guðbrandur hafi ætlað að þýða hana sjálfur, hann kunni víst hebresku, enda var hann sérlega mikið menntaður, bæði stjörnufræðingur og náttúrufræðingur og teiknaði fyrsta landakortið af Íslandi, sem frægt er.“

Hið íslenska biblíufélag er talið elsta félag landsins og var upphaflega stofnað til að gera almenningi kleift að eignast Biblíuna. Áður var það ekki á færi nema efnaðra, enda kostaði hún þrjú kýrverð, að sögn séra Solveigar Láru.



„Félagið stendur fyrir því að Biblían er alltaf endurskoðuð og prentuð og biskup Íslands hefur verið forseti þess frá upphafi,“ upplýsir hún.

Séra Solveig Lára segir sýninguna fyrir alla sem hafa áhuga á bókum. „Svo getur svona sýning kveikt áhuga hjá þeim sem ekki hafa hann fyrir,“ bendir hún á.

Á opnunarhátíðinni munu Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir syngja biblíuljóð og boðið verður upp á veitingar.

„Það verður örugglega gaman hér á laugardaginn og fullt af fólki sem fær að njóta,“ segir vígslubiskupinn og tekur fram að sýningin verði opnuð klukkan 14 og verði svo opin alla daga í ágúst frá 10 til 18.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×