Körfubolti

Helena verður ekki með í Hólminum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Vilhelm
Haukakonur verða án Helenu Sverrisdóttur í Stykkishólmi í kvöld í öðrum leik Hauka og Snæfells um Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s deild kvenna.

Besti leikmaður Domino´s deildar kvenna í vetur þarf að sætta sig við það erfiða hlutverk í kvöld að horfa á leikinn frá hliðarlínunni. Helena staðfesti þetta við Vísi í dag.

Helena meiddist á kálfa í þriðja leikhluta í leik eitt og gat ekki spilað síðustu fimmtán mínútur leiksins. Meiðslin voru það alvarleg að Haukar vilja ekki taka neina áhættu með það að gera illt verra og því mun Helena hvíla í kvöld.

Helena hefur verið í sjúkraþjálfun frá því á laugardag og mun halda áfram á fullu í að vinna í því að koma kálfanum í lag en þriðji leikurinn er síðan á Ásvöllum á fimmtudaginn. Þá verða liðnir fimm dagar frá því að hún meiddist.

Helena var komin með 17 stig, 16 fráköst og 5 stoðsendingar á 23 mínútum þegar hún meiddist í fyrsta leiknum á Ásvöllum. Þetta voru reyndar önnur meiðsli hennar þann daginn því hún fékk einnig fingur í augað fyrr í leiknum.

Haukar voru 40-25 yfir þegar Helena fór af velli en Snæfellskonur unnu síðustu fimmtán mínúturnar 39-25. Haukaliðið hélt hinsvegar út og þar munaði ekki síst um stigin 10 sem Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði í fjarveru Helenu. Haukarnir þurfa á öðrum stórleik að halda frá Pálínu ætli þær að komast í 2-0 í kvöld.

Snæfellskonur hafa ekki tapað í Stykkishólmi í allan vetur og þær unnu báða deildarleikina við Hauka í Hólminum, fyrst með tíu stigum í nóvember og svo með fjórtán stigum í janúar.

Fjarvera Helenu gerir verkefnið mun erfiðara fyrir Haukaliðið sem fá hinsvegar kjörið tækifæri til að sýna það og sanna að liðið sé meira en bara Helena Sverrisdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×