Körfubolti

Helena á toppinn í stoðsendingum og inn á topp fimm í stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir skorar í leiknum á móti Ungverjum í gær.
Helena Sverrisdóttir skorar í leiknum á móti Ungverjum í gær. Vísir/Ernir
Helena Sverrisdóttir leiddi íslenska kvennalandsliðið í körfubolta til sigurs á toppliði Ungverja í Laugardalshöllinni í gærkvöldi en þetta var fyrsti sigur íslensku stelpnanna í undankeppni EM 2017.

Helena vantaði bara tvær stoðsendingar til að ná fyrstu þrennu íslenskrar konu í Evrópukeppni en landsliðsfyrirliðinn endaði með 29 stig, 16 fráköst og 8 stoðsendingar eftir að hafa verið komin með 20 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar í fyrri hálfleik.

Helena var þarna að mæta gömlum liðsfélögum og gamla þjálfara sínum. Það kitlaði örugglega að sýna sig fyrir þeim og það gerðu hún svo um munaði.

Helena skoraði 13 af fyrstu 16 stigum íslenska liðsins og hjálpaði Íslandi að komast í 18-4 eftir aðeins fimm mínútur. Þessi upphafskafli gaf tóninn í leiknum en í kjölfarið fylgdu aðrar stelpur í liðinu með og spiluðu allar mjög vel.

Frábærar tölur Helenu í leiknum í gær skiluðu henni heldur betur ofar á tölfræðilistum undankeppninnar nú þegar fjórar umferðir eru að baki af sex.

Helena komst í efsta sætið í stoðsendingum en hún var í 3. sæti fyrir leikinn. Helena hefur gefið 27 stoðsendingar í fjórum leikjum eða 6,8 að meðaltali í leik.

Helena komst einnig upp í 5. sætið yfir stigahæstu konur undankeppninnar með 19,5 stig í leik og þá er hún komin upp í 6. sæti í fráköstum með 10,0 að meðaltali í leik. Fyrir leikinn var Helena í 17. sæti í stigum og í 18. sæti í fráköstum.

Helena er líka sá leikmaður sem hefur fiskað flestar villur (8,8 í leik) og þá er hún einnig í 2. sæti yfir flestar tvennu (3).

Helena hitti úr 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum í gær en hún hafði hitt illa fyrir utan í fyrstu þremur leikjum landsliðsins í undankeppninni. Nú var miðið stillt og þá var ekki sökum að spyrja.

Helena hefur tvisvar skorað fleiri stig í einum Evrópuleik en hún hefur eflaust aldrei leikið betur en í Laugardalshöllinni í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×