Skoðun

Heimurinn þarf á mannréttindasinnaðri þjóð að halda

Nicole Leigh Mosty skrifar
Þegar ég var stödd heima í Bandaríkjunum í sumarleyfi fylltist ég oft skelfilegum tilfinningum vegna stefnu ríkisstjórnar Donalds Trumps og þróunarinnar þarna „heima“ í garð innflytjenda og kynþáttahaturs sem er fleygt fram allsstaðar. Fyrstu helgina sem ég var stödd á landinu fóru fram mótmæli um allt landið vegna ákvörðunar um að rífa börn innflytjenda frá foreldrum. Heimurinn allur, Íslendingar þar á meðal, var hneykslaður og reiður vegna augljósra mannréttindabrota á innflytjendum af hálfu bandarískra yfirvalda. Dag eftir dag voru birtar fréttir þarna heima um hvítt fólk að áreita börn og fólk af öðrum kynþáttum eða uppruna á götum, hjá sundlaugum og í almenningsgörðum. Einn dag í Detroit urðum við vitni að ógnandi orðaskiptum þar sem ölvaður, ungur, hvítur maður var ósáttur við eldri, svartan mann sem var að syngja klassíkina „Mowtown Soul“ og nokkrar ungar, hvítar konur voru að njóta söngs hans og dönsuðu. Þetta var að mati hvíta mannsins alls ekki viðeigandi og reyndi hann að stoppa þetta af með ofbeldi.

Fordómar eru alls ekki nýir af nálinni í Bandaríkjunum. Við skulum tala opinskátt um að við erum ekki endilega að leiða heiminn hér á Íslandi hvað varðar viðmót til fólks af öðrum kynþáttum og þjóðernum. Mér fannst til dæmis alls ekki viðeigandi að fá tölvuskeyti frá fólki með dularfull nöfn sem kallaði mig „heimska útlenska tussu“ og sagði mér að „drulla þér heim, helvítis útlendingur“ eða „þú ert skömm á okkar þjóðþingi, landsmenn þurfa ekki á útlenskri druslu eins og þér að halda“. Samkvæmt Migrant integration Policy Index 2015 (MIPEX) var Ísland einungis „halfway favorable“ þegar það kom að samþættingu kvenna af erlendum uppruna. Það sem sló okkur lengst niður voru fordómar, þar sem Ísland var síðast af öllum 38 löndum með einungis 5 stig af 100. Það var þá, en nú er árið 2018 og við vitum að við hljótum að vera komin á betri stað. Til dæmis var Alþingi loksins að lögfesta bann við mismunun eða „Jafnri meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna“ með lögum nr. 85/2018

Ég fylltist stolti og von þegar ég sá frétt um að Ísland hefði verið kjörið í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna með 172 af 178 greiddum atkvæðum í New York um daginn. Ég hugsaði fyrir mér „nú erum við að gera það, nú munum við taka það skref sem einhver þarf að taka“. Því að sannleikurinn er að heimurinn þarf á einhverjum að halda sem hefur nægan kjark til að setja mannréttindi í algjöran forgang.

Ég ætla að vera svo djörf að segja að fordómar vegna fólksflutninga er ein mikilvægasta mannréttindabarátta þessarar aldar. Heimurinn þarf á mannréttindasinnaðri þjóð að halda, sér til fyrirmyndar. Einhverju landi sem er til í að segja „NEI nú er nóg komið“. Einhverju landi sem vill sýna fordæmi um hversu langt við getum farið með  alvöru jafnrétti, samkennd og kærleika að leiðarljósi. Ég veit að þessi gildi eru mikilvæg hjá Íslendingum. Ég hef upplifað það sjálf og ég hef oft, sem betur fer, orðið vitni að því þegar þörf er á hjálp, bæði vegna fólks af íslenskum og erlendum uppruna, þá er hún alltaf til staðar.

Ísland hefur öll tæki og tól til að leiða heiminn hvað varðar mannréttindi. Við erum friðsöm þjóð án hers . Við erum ríkt land. Við erum vel menntuð þjóð með siðferði (flest okkar) á hreinu. Við erum lítið land þar sem innflytjendur eru innan við 40,000 manns. Það er einungis smábær í öðrum löndum. Við þurfum ekki á utanaðkomandi ráðum að halda. Abraham Lincoln sagði í einu af hans frægasta ræðuhaldi „A house divided against itself, cannot stand“ og við sjáum það núna í Bandaríkjunum, þar er húsið að hrynja. Er ekki best að við stöndum saman í því að vernda og halda mannréttindum hátt á lofti?

Ég ætla ekki að segja meira um heiðursgestinn Pía Kjærsgaard vegna stórhátíðarinnar sem var haldin núna á þriðjudaginn. Ég vil samt spyrja: Af öllum háttsettum Dönum sem hægt hefði verið að bjóða hingað, hvers vegna var ákveðið að ganga gegn okkar gildum og þeim tækifærum sem við höfum fengið við að sýna sem bestu dæmin um hversu friðsöm þjóð við erum, með því að velja hana? Af hverju var ekki hugsað vel um hvað þessi kona stendur fyrir og hvernig hún náði þessu valdamikla pólitíska embætti?

Þegar Donald Trump var boðið til Bretlands af hálfu forsætisráðherra, Teresa May, var ekki reynt að aðskilja manninn sjálfan frá embætti hans. Forseta Bandaríkjanna var ekki boðið í opinbera heimsókn, heldur var Donald Trump boðið í „working visit“ vegna mannsins sem hann er og þess sem hann stendur fyrir. Allir vissu að skrímslinu var boðið í heimsókn. Hans komu var hins vegar mótmælt opinberlega af þinginu þar sem þau neituðu að taka á móti honum, borgarstjóra London og almenningi sem mætti með læti á göturnar um allt land . Mikilvægt er að við gleymum aldrei að viðurkenna að fordómar, kynþáttahatur og hatursorðræða eru hegðun sem skrímsli nota til að ná athygli og þar með valdi. Við hljótum að spyrja okkur hversu oft við viljum bjóða svona skrímslum pláss í sviðsljósinu og hvort við viljum vera þjóð sem býður upp á að gefa þeim þetta pláss? Viljum við heiðra fólk sem sýnir hegðun sem stangast á við okkar gildi?

Eða erum við enn að rembast innst inní okkur um hvort við erum tilbúin að verja mannréttindi og vera sú fyrirmyndarþjóð sem heimurinn þarf á að halda? Við erum tilbúin að monta okkur þegar heimurinn segir að við erum best í jafnréttisbaráttu vegna kynjajafnréttis, hvað með kynþátta- og þjóðernisjafnrétti? Mikið stolt mundi fylgja því líka.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×