Erlent

Heimsótti öll 196 ríki heims

Jón Júlíus Karlsson skrifar
James Asquith hefur heimsótt öll 196 ríki heims aðeins 24 ára gamall.
James Asquith hefur heimsótt öll 196 ríki heims aðeins 24 ára gamall.
Englendingurinn James Asquith kveðst hafa heimsótt öll 196 ríki heims sem samþykkt eru af Sameinuðu þjóðunum. Asquith, sem er 24 ára gamall, hóf ferðalag sitt árið 2008 og hefur á undanförnum árum verið á miklu flakki um heiminn. Hann reynir nú að fá afrek sitt staðfest af Heimsmetabók Guinness.

Asquith hefur stundað nám við London School of Economics háskólann samhliða ferðalaginu og nýtt frímánuði undanfarin ár til að ferðast. Heildarkostnaðurinn af ferðalaginu er skiljanlega mikill og er um 23 milljónir króna. Asquith hefur fjármagnað ferðalagið með vinnu, bæði samhliða skóla og tekið að sér ýmis störf á ferðalaginu.

„Ég elska adrenalínið sem fylgir ferðalaginu en ég virtist alltaf velja verstu tímasetningarnar til að heimsækja ríki,“ segir Asquith sem heimsótti Líbýu og Afganisthan þegar þar ríkti borgarastyrjöld.

„Það var mikið af litlum ríkjum með flóknum landamærum og ég setti því mikið traust á fólk sem ég þekkti ekki neitt til að koma mér á milli ríkja. Ég er ekki búinn ennþá því það eru nokkur ríki sem ég vil heimsækja í viðbót.“

Asquith við Jökulsárlón.
Asquith kemur frá Stevenage, skammt frá London, og hóf að ferðast eftir að nokkrir af vinum hans héldu í heimsreisu. Á síðasta ári setti Graham Hughes met þegar hann varð fyrsti einstaklingurinn til að heimsækja 201 ríki án þess að fljúga. Aðeins 196 ríki af þeim hafa sjálfstæði og eru viðurkennd af Sameinuðu þjóðunum.

Asquith kom auðvitað til Íslands á ferðalagi sínu og myndaði sig við Jökulsárlón eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Hann gerði jafnframt skemmtilegt myndband sem sjá má hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×