Innlent

Heimsókn til Amsterdam kostaði 3,4 milljónir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Flestir í hópnum frá Reykjavíkurborg gistu á Max Brown hótelinu.
Flestir í hópnum frá Reykjavíkurborg gistu á Max Brown hótelinu.
„Sambærileg fræðsluferð hefur ekki verið farin á menningar- og ferðamálasviði síðan árið 2007,“ segir í svari Svanhildar Konráðsdóttur sviðsstjóra við fyrirspurn Fréttablaðsins vegna ferðar til Hollands í síðustu viku.

Sextán voru í hópnum sem dvaldi þrjár nætur í Amsterdam og Rotterdam og einn maki að auki sem Svanhildur segir að hafi greitt fyrir sig sjálfur. Í hópnum voru allir kjörnir fulltrúar menningaráðs auk forstöðumanna menningarstofnana.

„Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér rekstur, starfsemi og bestu lausnir í menningar- og ferðamálum hjá ýmsum stofnunum í Amsterdam og Rotterdam í Hollandi,“ segir Svanhildur.

„Flestir gistu á Max Brown hótelinu en sökum þess að ekki var rúm fyrr alla á gistihúsinu gistu fimm úr hópnum á öðrum gististöðum í nágrenninu.“ Max Brown er tveggja stjörnu hótel.

Heildarkostnaðurinn við ferðina var tæpar 3,4 milljónir króna. Flugið kostaði 930 þúsund krónur, dagpeningar vegna gistinátta 1.218 þúsund, dagpeningar vegna ferðadaga 1.083 þúsund og boð fyrir skipuleggjendur í Rotterdam 152 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×