Fótbolti

Heimsmeistari semur við rappara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jérome Boateng skálaði við Jay-Z.
Jérome Boateng skálaði við Jay-Z. vísir/getty
Jérome Boateng, varnarmaður Bayern München og þýska landsliðsins í fótbolta, varð um helgina fyrsti fótboltamaðurinn sem umboðsskrifstofan Roc Nation, sem eru í eigu rapparans Jay-Z, semur við.

Roc Nation og íþróttaumboðsskrifstofan SAM sport agency, sem er í eigu fyrrverandi Bayern-leikmannsins Christian Nerlinger, eru komin í samstarf er Boateng sá fyrsti sem þær sjá um.

Boateng er fæddur í Berlín og hóf ferilinn með Herthy en spilaði svo með Hamburg og Manchester City áður en hann gekk til liðs við Bayern árið 2011. Hann á að baki 52 landsleiki fyrir Þýskaland og varð heimsmeistari með liðinu í Brasilíu í fyrra.

Boateng var í New York í síðustu viku að skoða sig um, en hann tilkynnti aðdáendum sínum á þetta á Twitter er hann sigldi um Liberty-eyju. Hann fór einnig á tónleika með Mary J Blige og skálaði fyrir nýja samningnum með Jay-Z á 40/40-klúbbnum í Brooklyn, að því fram kemur í frétt MLSSoccer.com.

„Ég er bara að vinna hér í nokkra daga. Ameríka er risastór markaður rétt eins og Asía. Við munum sjá til hvort ég geti sigrast á markaðnum hérna. Ameríka er mjög spennandi álfa fyrir mér,“ sagði Jérome Boateng í viðtali við The Bild.

Roc Nation er með nokkrar ofurstjörnur í bandarískum íþróttum á sínum snærum, en þar má nefna hafnaboltakastarann CC Sabathia, leikmann New York Yankees, NFL-stjörnuna Dez Bryant og NBA-leikmanninn Kevin Durant.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×