Lífið

Heimskulegt að skikka fólk á eftirlaun

Svavar Hávarðsson skrifar
Kári Jónasson ákvað hann að fara aftur í skóla og hefja störf sem leiðsögumaður – 67 ára að aldri.
Kári Jónasson ákvað hann að fara aftur í skóla og hefja störf sem leiðsögumaður – 67 ára að aldri. Vísir/Stefán
Það er mikið talað um mannauð í þessu landi – að hann sé að tapast með ungu fólki sem yfirgefur heimahagana til að vinna annars staðar. Á sama tíma erum við að skikka íbúa þessa lands til að hætta að vinna löngu áður en fólk er sjálft tilbúið til þess. Það er mikil sóun, fyrir utan hvað það er heimskulegt,“ segir Kári Jónasson, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins og ritstjóri Fréttablaðsins. Við lok 45 ára ferils sem blaða- og fréttamaður, fyrir tíu árum, hófst nýtt tímabil í lífi Kára; þá ákvað hann að fara aftur í skóla og hefja störf sem leiðsögumaður – 67 ára að aldri.

Eiginkonan og jeppinn

Ákvörðunin byggðist ekki á lítt ígrundaðri hugdettu. Kári segir að tvennt hafi ráðið þar miklu – kaup á jeppabifreið árið 1963 og hvatningar­orð eiginkonu hans, Ragnhildar Valdimarsdóttur, þegar störfum á Fréttablaðinu lauk.

„Ragnhildur hvatti mig til að hefja nám í Leiðsöguskóla Íslands í Kópavogi sem gerði þessa ákvörðun auðvelda. Þá var ég fyrir löngu búinn að ákveða að hætta störfum á fjölmiðlum þegar 45 árum yrði náð, en eitt og annað kom til greina,“ segir Kári, en þegar blaðamaður hitti hann var hann nýkominn úr ferð þar sem reynt var að sýna yfir þúsund ferðamönnum norðurljósin – eitt helsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn yfir veturinn.

Kári hefur starfað sem leiðsögumaður í um áratug – en hóf störf í því fagi 67 ára að aldri. Mynd/Kári – úrsafni
„Ég hafði, þegar ég var í stjórn Norræna blaðamannasambandsins og Norræna blaðamannaskólans, farið með þá félaga mína um landið nokkrum sinnum. En sem blaða- og fréttamaður var ég búinn að heimsækja hvert einasta krummaskuð á þessu landi; búinn að fara yfir alla fjallvegi og sjá fjölmörg eldgos með viðkomu á jöklum. Svo ég hafði mjög góðan bakgrunn fyrir þetta nýja starf. Ég held að ástæðan fyrir því að ég fór svo víða um landið var að ég eignaðist jeppa árið 1963, gamlan Willys-jeppa, sem er ástæðan fyrir því að ég hef verið eins og landafjandi úti um allt land. Í byrjun var það ásamt vini mínum Rudolf Kristinssyni, stórkaupmanni og fornbílagúrú. Við afrekuðum það fyrstir manna að aka upp á Langjökul, en með okkur í för var Kristleifur á Húsafelli. Þetta var mikil ævintýraferð en þar vorum við að elta þýska sjónvarpsstöð sem var að taka upp sjónvarpsmynd um Robert Falcon Scott sem komst ekki á suðurpólinn fyrr en fjórum vikum á eftir norska pólfaranum Roald Amundsen.

Indriði G. Þorsteinsson, þáverandi ritstjórinn minn á Tímanum, var mikill bílaáhugamaður og varð sennilega ekki eins hrifinn af neinu sem ég gerði undir hans ritstjórn,“ segir Kári en bætir við að ferð þeirra á jökulinn hafi verið dregin í efa þegar frá leið og hann og samferðamenn hans hafi þurft að sanna að ævintýrið átti sér stað með að sýna ljósmyndir úr ferðinni.

Önnur ferðalög sem Kári nefnir er ferð með bandarískum geimförum inn í Öskju, en eins og frægt er orðið dvöldu þar tveir hópar geimfara við rannsóknir árin 1965 og 1967. „Þetta allt kveikti hjá mér áhuga á ferðamennsku og síðar leiðsögn. Það má segja að það sé upphafið, þó pabbi hafi vissulega líka verið fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands, sem ég horfði til,“ segir Kári sem kláraði jafnframt fjarnám við Háskólann á Hólum eftir að námi í Leiðsöguskólanum sleppti. Þess utan hefur Kári verið í gönguklúbbi í yfir þrjátíu ár og segir að íslenskt sumar sé ófullkomnað fram að þeim tíma að hann hefur sofið eina sumarnótt í tjaldi með konunni sinni Ragnhildi.





Kári og Gestur Einar Jónasson á rjúpnaveiðum – en bæði skot- og stangveiði eru meðal áhugamála Kára. Hann hefur fyrir stuttu náð tveimur hreindýrum fyrir austan. Mynd/KJ – úr safni
Vasaljós á Strokk

Talið berst að samstarfsfólki hans í ferðaþjónustunni – og því umhverfi sem Kári hefur starfað í síðustu tíu árin. Hann segir aðkallandi að sameina allt það fólk sem vinnur við leiðsögn á Íslandi undir einum hatti – innan skýrt afmarkaðs félagsskapar. Ekki sé lengur um sumarvinnu að ræða fyrir óskilgreindan hóp, heldur sé um að ræða alvöru atvinnugrein hundraða manna og kvenna – þó störfin séu í eðli sínu ólík eftir því hvort ferðast sé um landið sitjandi í rútu, upp á jökla á jeppum eða út á sjó í hvalaskoðunarbátum.

„Þetta er fólk sem þarf að hafa grundvallarþekkingu á starfinu, og landi og þjóð. Það er ekkert vit í því, eins og þetta er núna, að hver sem er, útlendingur eða Íslendingur, geti stokkið upp í rútu og farið að leiðsegja. Maður heyrir ótrúlegar sögur bílstjóranna sem keyra um landið, af útlenskum svokölluðum leiðsögumönnum eða hópstjórum. 

Bílstjórarnir þurfa til viðbótar að bera ábyrgð á lífi og limum farþega sinna og leysa öll þau vandamál sem koma upp vegna vanþekkingar þeirra sem eiga að leiða hópana um landið. Yfirvöld verða að koma einhverjum böndum á þetta. Við Íslendingar mætum ekki mörg saman og látum landa okkar fylgja okkur um hallir í Austurríki eða upp í Eiffel-turninn í París, er það? Ferðaþjónustan hefur sprungið út en stjórnvöld hafa sofið þyrnirósarsvefni á meðan. Það verður að krefjast grundvallarþekkingar frá þeim sem taka þetta að sér; að þeir viti af veðrabrigðum og hvað sé áhugavert á hverjum tíma. Eins að þeir gæti að því að gengið sé um landið af þeirri virðingu sem það á skilið og viti hvar hættur geta steðjað að. Það erum nefnilega við leiðsögumenn sem oftar en ekki göngum í störf landvarða,“ segir Kári og nefnir dæmi af hópum sem koma til Íslands en gera sér ekki grein fyrir því að átta tímar af tólf tíma rútuferð í desember eru í myrkri.

„Ég hef sjálfur notað vasaljósið mitt til að sýna hópi erlendra ferðamanna hverinn Strokk – í ferð sem var skipulögð úti í heimi,“ segir Kári sem alltaf minnir sína skjólstæðinga í vetrarferðum á andstæðuna sem íslenska sumarið er – paradís birtu þar sem möguleikarnir til afþreyingar og ferðalaga séu ótakmarkaðir.

Fáránlegt!

Kári segir það aldrei hafa hvarflað að sér að setjast í helgan stein þegar hann lauk störfum á Fréttablaðinu. Hann hafi vissulega lært að halda á golfkylfu fyrir nokkrum árum, en bara með þeim árangri að hafa mest farið einu sinni á golfvöll á hverju sumri síðan. Hann hafi aldrei haft áhuga á því að sitja við sjónvarp og „horfa á boltaleiki“ enda sé það byggt á langri reynslu að ólíklegt sé að úrslit þeirra breytist við að hann sitji við sjónvarpið. „Mér duga úrslitin,“ segir Kári sem játar því að sennilega sé hann að sinna sínu stærsta áhugamáli með því að vinna sem leiðsögumaður. Það truflaði hann til dæmis ekki neitt að íslenska karlalandsliðið stóð í ströngu í sumar – enda séu afrek íslenskra íþróttakvenna merkilegri í hans huga, þó minna sé um þau talað.

En hvað finnst Kára, í samhengi við ákvörðun sína, um þá staðreynd að fólki sem komið er á tiltekinn aldur sé gert að hætta að vinna – að öllu leyti byggt á fæðingarári en ekki með tilliti til líkamlegs- og andlegs atgervis?

„Það er fáránlegt að ekki sé litið til vilja og getu fólks til að vinna. Aldur skiptir litlu sem engu máli í þessu samhengi – en skilaboðin sem stjórnvöld senda eru skýr. Ég get tekið sem dæmi að margir bílstjórar í íslenskri ferðaþjónustu eru komnir á aldur. Þeir óttast mjög að ný lög um almannatryggingar, þar sem frítekjumark er lækkað, þýði að þeim sé skákað af vinnumarkaðnum. Þessir menn eru frábær starfskraftur innan íslenskrar ferðaþjónustu og geta tekið að sér afmörkuð verkefni, rétt eins og við leiðsögumenn á sama aldri. Stjórnvöld tala um að uppræta svarta atvinnustarfsemi, en ýta svo undir hana með glórulausum aðgerðum eins og þessum. Menn tala um samræmingu í löggjöf en allir sjá hvað þetta er gloppótt og hætturnar sem felast í þessu,“ segir Kári. „Af hverju má ekki leyfa fólki að vinna og njóta þess, öllum til hagsbóta – ég skil ekki hugsunina sem liggur þessu til grundvallar. Gerir það einhver? Gríðarlegri þekkingu og reynslu er kastað á glæ, fullkomlega að ástæðulausu,“ bætir Kári við.

Hann telur reyndar að atvinnuþátttaka eldra fólks geti átt sérstaklega vel við í ferðaþjónustu. Þar séu verkefnin oft vel afmörkuð og auðvelt að velja og hafna fyrir þá sem vilja vinna á efri árum. „Það er mjög algengt hjá okkur leiðsögumönnum að við vinnum fyrir fleiri en eitt fyrir­tæki, sem geta ekki verið með fólk á föstum launum við að leiðsegja og keyra, til dæmis í norðurljósaferðum svo dæmi sé tekið. Í ferðinni sem ég fór í gærkvöldi voru margir, bæði bílstjórar og leiðsögumenn, sem voru á eftirlaunaaldri. Þetta er heppilegur starfskraftur og gott að geta sagt, kominn á þennan aldur, að stimpilklukkan sé ekki þinn húsbóndi. Þetta er okkar val – að segja já eða nei við þessum verkefnum og geta sinnt áhugamálum okkar þess á milli,“ segir Kári.





Kári við störf á vegum Tímans í upphafi Surtseyjargossins árið 1963. Kári fór 24 sinnum að gosinu á þeim þremur árum sem það stóð. Mynd/KJ – úr safni
Skýtur hreindýr milli ferða

Það er ekki ofsagt að Kári stokki saman vinnu og tómstundir þessi misserin. Eins og er komið fram spilar Kári ekki golf, en veiðimennska er honum hugleikin – bæði stangveiði og skotveiði. Þó verður í framhjáhlaupi líka að nefna skógrækt og söng með eldri félögum í Karlakór Reykjavíkur.

„Ég er búinn að skjóta tvö hreindýr, og fer líka á rjúpu. Við hjónin eigum jörð norður í landi með annarri fjölskyldu og höfum farið mikið þangað. Við höfum átt þessa jörð í þrjátíu ár, og þar safnaði ég kröftum á meðan ég var í fréttamennskunni. Hvergi hvílist ég betur en að ganga þar upp með á, eða upp á fjall.“

Snýst um lýðræði

Kári starfaði á fjölmiðlum í 45 ár, eins og áður sagði, og lifði því breytingar í fjölmiðlum sem erfitt er að skilja. Hann byrjaði sem blaðamaður á Tímanum árið 1963 og hafði þá áður unnið hjá Sambandinu gamla við að skrifa í blöð á vegum þess – í Samvinnuna og Hlyn auk annarrar útgáfustarfsemi. Stærstum hluta starfsævi sinnar á fjölmiðlum varði Kári hjá Ríkisútvarpinu eða 31 ári – þar sem hann gegndi lengi starfi fréttastjóra. Síðustu þrjú ár blaðamannsferils síns, frá 2004 til 2007, var Kári ritstjóri Fréttablaðsins.

„Ég hef miklar áhyggjur af fjölmiðlum á Íslandi. Stjórnvöld eru allt of hrædd við að styðja við fjölmiðla fjárhagslega, eins og tíðkast víðast hvar í kringum okkur. Það gætu verið ívilnanir í skattamálum, og ég man ekki betur en í gamla daga, þegar blöðin voru tengd stjórnmálaflokkunum, að þá var komið til móts við þau – það var gert með því að greiða niður dagblaðapappír. En það er nauðsynlegt að stjórnvöld taki sig saman í andlitinu og stígi þetta skref. Án góðra fjölmiðla verður ekkert lýðræði í landinu, svo einfalt er það. Fjölmiðlar þurfa stuðning til að hægt sé að fjalla um málefni lands og þjóðar á faglegan hátt, hvort sem það eru prentmiðlar, útvarp, sjónvarp eða netmiðlar,“ segir Kári og er á því að þjóðin skuli eiga gott Ríkisútvarp.





„Ég hef oft sagt að eitt það besta sem kom fyrir okkur á fréttastofu útvarpsins var þegar Bylgjan hóf að flytja fréttir – það ýtti við okkur. Það á að vera samkeppni í fjölmiðlum, bæði innan einkageirans og á milli einkageirans og ríkisfjölmiðla. Hvernig þetta verður best gert þarf að leggjast yfir, en skorður við auglýsingar hjá RÚV er nærtæk leið. Eins var það gönuhlaup þegar afnotagjöld voru afnumin, enda hefur nefskatturinn verið notaður til margs annars en hann er ætlaður fyrir. Öflugir fjölmiðlar eru lykilatriði þegar kemur að lýðræði og fyrir umræðuna í landinu,“ segir Kári og bætir við að vissulega hafi Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra skipað nefnd til að gaumgæfa þetta mál, en þá sé til þess að líta að mörg nefndin hafi verið stofnuð til lítils annars en að drepa málum á dreif.





Gustavsberg

Spjallið berst aftur að ferðaþjónustunni og málefnum hennar, enda Kára mjög hugleikin. Hann segir ekkert ofsagt í umfjöllun fjölmiðla og annarra um þörfina á uppbyggingu innviða, og stórt sem smátt sem þurfi að færa til betra horfs strax. Hann segir að í því ljósi sé með ólíkindum að Isavia virðist hafa ótakmarkaðan aðgang að fé til að byggja upp móttöku ferðamanna á Keflavíkurflugvelli, en á sama tíma séu grundvallarstoðir ferðaþjónustunnar um allt land vanræktar.

„Þar getum við nefnt vegagerð, löggæslu og ekki síst heilbrigðisþjónustuna. Þarf að nefna salernismálin og gangstígagerð? Klósettmálin eru stórt vandamál, og á meðan skrifaðar eru skýrslur um þetta bíðum við leiðsögumenn eftir því að það gerist eitthvað. Ég held til dæmis að það séu sömu klós­ettin við Seljalandsfoss og stóðu þar fyrir áratug þegar ég byrjaði í þessu ferðastússi. Sveitarfélögin verða að fá beinan stuðning frá ríkinu til að klára grunninn að því sem ferðamaðurinn þarf – salerni, bílastæði, göngustíga og útsýnispalla svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem fara með stjórn þessa lands ættu að gera meira af því að hlusta á sveitarstjórnarmenn.

Umgjörð Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða verður svo auðvitað að endurskoða í því ljósi að þar liggur stórfé sem enginn getur nýtt vegna formsatriða og að sveitarfélögin hafa ekki burði til að nýta þá. Þetta er auðvitað sárgrætilegt,“ segir Kári og bætir við að það sé umhugsunarefni, í ljósi stærðar greinarinnar, að árleg gjöld af eldsneyti á bílaleigubíla, sem skipta milljörðum, myndu fara langt með að duga til uppbyggingar innviða.

„Hvað verður um alla þessa peninga sem ferðaþjónustan aflar ríkinu?!“ spyr Kári og segist jafnframt hugsi yfir þeirri staðreynd að ferðaþjónustunni og umhverfismálum sé ekki gert hærra undir höfði í stjórnsýslunni. Þar blasi við að sérstakt ráðuneyti þurfi að koma til, og því næst þurfi að endurskipuleggja allar þær fjölmörgu stofnanir sem koma að þessum málum í samhengi við nýtt ráðuneyti.

„En þetta varðar bæði stórt sem smátt. Íslenski hesturinn hefur svo mikið aðdráttarafl að það er orðið sérstakt vandamál úti á þjóðvegunum – bæði vegna hættu í umferðinni sem skapast þegar ferðamenn stoppa við girðingar og vegna þess að verið er að fóðra dýr með einhverju sem þau eiga ekki að fá. Þeim skilaboðum þarf að koma á framfæri að þetta sé óæskilegt, eða að banna þetta hreinlega. Við sem ferðumst um landið allt árið sjáum líka að margir sem hér eru á ferð ættu ekki að keyra við íslenskar aðstæður. Og það verður til dæmis einhver að segja það upphátt, að konur af asískum uppruna kunna ekki að nota Gustavsberg – og það þarf að taka tillit til þessara ólíku þarfa okkar gesta af hugkvæmni,“ segir Kári og hefur á orði að villta norðrið sé kannski réttnefni um stöðu ferðaþjónustunnar árið 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×