Fótbolti

Heimir varar Ólympíumeistara við að synda í kringum Ísland ef Frakkland tapar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Franski sundkappinn Yannick Agnel er búinn að lofa því að synda hringinn í kringum Ísland ef strákarnir okkar vinna Frakkland í leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópumótsins á sunnudaginn í París.

Agnel virðist vera nokkuð sigurviss en franska liðið er vitaskuld á heimavelli með frábærlega mannað lið sem er líklegt til að vinna EM. Ísland er aftur á móti minnsta þjóðin sem hefur spilað í lokakeppni Evrópumótsins.

Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, var spurður út í þetta loforð Agnels sem er einn allra fremsti sundkappi heims. Hann vann gull í 200 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í Lundúnum auk þess sem hann tók gull í 4x100 metra skriðsundi ásamt frönsku sveitinni.

„Ég mæli ekki með því að synda til Íslands,“ sagði Heimir en þegar spurningin var borin upp fyrst á fundinum var hún þannig að Agnel ætli sér að synda til Íslands. Það var síðar leiðrétt.

„Ég býr á eyju fyrir utan Ísland og það tekur þrjá tíma að sigla yfir. Ég mæli ekki með því að synda í kringum Ísland,“ sagði Heimir Hallgrímsson.

Yannick Agnel á í verðlaunasafninu 16 gull frá Ólympíuleikum, HM og EM. Að synda í kringum Ísland verður þó klárlega hans mesta afrek. Við hlökkum bara til að sjá Agnel í júlí.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Heimir: Við viljum enda eins og Leicester

Heimir Hallgrímsson segir að hann vilji að EM-ævintýri íslenska landsliðsins fái sama farsæla endi og saga Leicester í ensku úrvalsdeildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×