Fótbolti

Heimir: Viljum að síðasta setningin um A-landsliðið á árinu 2016 verði jákvæð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar á næstu dögum tvo síðustu leiki sína á árinu 2016. Þetta verða sextándi og sautján leikur liðsins á árinu sem er nýtt met. Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson vill enda ótrúlegt ár á jákvæðan hátt.

Íslenska liðið mætir fyrst Króatíu í Zagreb í undankeppni HM 2018 eftir átta daga en spilar svo vináttulandsleik við Möltu þremur dögum síðar. Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, leggur ekki bara áherslu á mótsleikinn við Króata.

Heimir leggur einnig mikið upp úr því að gera góða hluti á móti Möltu sem verður síðasti leikur liðsins á mögnuðu ári. Hann vill líka sjá íslenska liðið standa sig betur í vináttulandsleikjunum en það hefur gert.  

„Þetta er síðasti leikur ársins og þegar við gerum upp árið 2016, þetta frábæra ár, þá viljum við að lokasetningin, um síðasta leik ársins á móti Möltu, verði jákvæð,“ sagði Heimir Hallgrímsson á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands í dag.

„Við höfum ekki verið nógu stöðugir í þessum vináttulandsleikjum og við viljum breyta því. Við viljum enda árið á jákvæðan hátt,“ sagði Heimir  

„Hvort sem að það er of lítill fókus hjá okkur þjálfurunum í þessum vináttuleikjum eða of miklar breytingar. Við erum allavega vel undirbúnir fyrir þennan Möltuleik og gerum allt okkar til að enda árið á jákvæðan hátt þannig að síðasta setningin um íslenska A-landsliðið verði jákvæð,“ sagði Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×