Handbolti

Heimir: Útlendingurinn stóð ekki undir væntingum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Örn Árnason og hans menn frá Akureyri verða áfram í Olís-deildinni.
Heimir Örn Árnason og hans menn frá Akureyri verða áfram í Olís-deildinni. Vísir/Daníel
Akureyri vann HK, 31-23, í lokaumferð Olís-deild karla í handbolta í kvöld og fyrst ÍR tapaði heima fyrir FH endaði Akureyri í sjötta sæti deildarinnar og sleppur við umspilið.

„Þrátt fyrir að þetta umspil verði kannski ekki neitt þá er bara heiðurinn að komast upp í 6. sæti,“ sagði Heimir Örn Árnason, þjálfari Akureyrar, við blaðamann Vísis eftir leikinn í kvöld.

Akureyri stefndi hraðbyri að sjöunda sætinu eftir erfitt gengi um mitt mót og voru ekki margir sem höfðu trú á því að liðið gæti bjargað sér frá umspilinu.

Norðanmenn girtu sig aftur á móti í brók og tóku á mikinn sprett í þriðju umferðinni. Það vann þrjá leiki og gerði tvö jafntefli í síðustu sex leikjum sínum á meðan önnur lið í kringum það hrundu.

„Þótt að það hafi ekki verið þú þá voru nokkrir sem voru að halda því fram að við værum að fara að enda í sjöunda sæti og þess vegna er maður alveg hrikalega stoltur af þessum lokaspretti. Við tókum einhverja átta af tíu held ég. Við fórum í Fjörðinn og tókum tvö stig og erum bara mjög stoltir með liðið og endirinn. Það kom bara í ljós að við erum ekkert með verri lið en hinir,“ sagði Heimir.

Heimir þakkar brotthvarfi Vladimir Zejaks fyrir góðan árangur liðsins á seinni hluta mótsins en hann stóð svo sannarlega ekki undir væntingum.

„Við ætluðum náttúrulega að byggja liðið í kringum þennan útlending sem kom. Hann stóð svo ekki undir væntingum. Eftir að hann fór þá var bara allt upp á við og við erum bara hrikalega ánægðir með þetta, ótrúlega stoltir af okkar liði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×