Fótbolti

Heimir: Þeir átu upp miðjuna hjá okkur

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. vísir/stefán
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var að vonum svekktur hvernig hans menn spiluðu úr sínum spilum í leiknum gegn Dundalk í kvöld.

FH-ingar komust yfir á 20. mínútu en gáfu svo mikið eftir og David McMillan kom Dundalk í 1-2 með tveimur mörkum í upphafi seinni hálfleiks. Eftir það var róðurinn þungur fyrir FH-inga sem tókst ekki skora mörkin tvö sem þeir þurftu til að komast áfram.

„Mér fannst við fínir í fyrri hálfleik og einu færin sem þeir fengu voru þau sem við gáfum þeim og svo skot fyrir utan,“ sagði Heimir í samtali við Tómas Þór Þórðarson eftir leik.

„Svo breyttu þeir í hálfleik úr 4-4-2 í 4-3-3 og átu bara upp miðjuna hjá okkur. Við réðum ekki neitt við neitt,“ sagði Heimir um byrjunina á seinni hálfleiknum sem varð FH-ingum að falli.

„Við náðum að klóra í bakkann og áttum möguleika á að skora þriðja markið í lokin en það gekk ekki.“

Heimir segir að FH-ingar hafi verið sjálfir sér verstir á þessum örlagaríka kafla í upphafi seinni hálfleiks.

„Þú mátt gera færri mistök í Evrópuleikjum en gengur og gerist í íslensku deildinni. Við gerðum of mikið af mistökum fyrstu 15-20 mínúturnar í seinni hálfleik. Við misstum boltann á slæmum stöðum og náðum ekki að setja hann inn fyrir vörnina hjá þeim. Þeir refsuðu okkur,“ sagði Heimir en skiptingar hans hleyptu nokkru lífi í FH-liðið.

„Það var ekkert annað að gera eftir að við lentum 1-2 undir. Við urðum að bregðast við en það vantaði kannski smá áræðni eða heppni,“ sagði þjálfarinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×