Fótbolti

Heimir: Það er erfitt að halda andliti eftir þetta

Heimir var brosmildur í viðtölum eftir leik.
Heimir var brosmildur í viðtölum eftir leik. Vísir/Getty
„Auðvitað er maður hrikalega stoltur af strákunum þótt þetta hafi ekki verið okkar besti leikur,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar þjálfari íslenska liðsins, hrærður eftir leikinn.

„Við vorum of varnarsinnaðir í fyrri hálfleik, við vorum að tapa boltanum og að reyna erfiðar og langar sendingar. Það var nóg af svæðum til þess að fara í en það eru fimmtán ár síðan Holland tapaði á heimavelli. Skítt með það að þetta hafi ekki verið okkar besti leikur.“

Heimir var ánægður með leikskipulag íslenska liðsins í kvöld.

„Þetta fór ekki eins og þeir ætluðu og maður sá vonleysissvipinn á þeim eftir því sem leið á leikinn. Þeir fóru að dæla löngum boltum inn á teig sem er alls ekki leiðin sem þeir vilja fara. Í seinni hálfleiknum reyndum við að vera agressívari í varnarleiknum og vinna boltann betur af þeim. Við fengum markið upp úr því.“

Heimir var fljótur að minna á að það þurfti eitt stig til þess að gulltryggja sætið á EM næsta sumar.

„Við þurfum að ná stiginu á sunnudaginn og við verðum að einbeita okkur á það. Það verður eflaust erfitt að sofna í kvöld því menn vilja fagna en markmiðið okkar er að klára þetta á sunnudaginn.“

Heimir sagði að fyrirliði liðsins hefði fengið krampa en Aron Einar fór meiddur af velli undir lok leiksins.

„Hann hefur ekki spilað marga svona erfiða leiki í 90 mínútur við vonum að þetta hafi bara verið krampi, það var strax farið að vinna í honum þegar hann kom inn í klefa.“

Heimir viðurkenndi að það væri erfitt að halda andliti.

„Það er það, það væri hægt að gera svo ótrúlega margt annað en að halda ró sinni en við verðum að vera agaðir og sýna gott fordæmi. Auðvitað reynir maður að halda andliti og að vera ekki brosandi út að eyrum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×