Fótbolti

Heimir: Hefðum getað fengið æfingaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir/Vilhelm
Heimir Hallgrímsson tilkynnti í dag sinn fyrsta landsliðshóp eftir EM í Frakklandi en Ísland mætir Úkraínu ytra í undankeppni HM 2018 þann 5. september.

Heimir gerði fáar breytingar á liði sínu. Eiður Smári Guðjohnsen er ekki með enda án félags og þá fær Hjörtur Hermannsson fremur að spila með U-21 liði Íslands. Inn í þeirra stað koma Viðar Örn Kjartansson og Hólmar Örn Eyjólfsson.

Landsliðin hafa rétt á að kalla leikmenn til sín á mánudag, 29. ágúst. Viku síðar er leikurinn í Úkraínu. Það hefði því verið hægt að vera með vináttulandsleik fyrir leikinn í Kænugarði en Heimir sagði við Vísi að ákveðið hafi verið að gera það ekki.

„Það hefði verið hægt að fá vináttuleik en við sóttumst ekki eftir því,“ segir Heimir. „Við vorum það lengi úti í Frakklandi saman að við töldum betra að slaka aðeins á í undirbúningnum fyrir þennan leik.“

Íslenska landsliðið kemur saman til æfinga í Þýskalandi á þriðjudag og fá því leikmenn aukadag í frí heima hjá sér.

„Við æfum svo miðvikudag, fimmtudag og föstudag og ferðum svo til Úkraínu á laugardeginum,“ útskýrir Heimir.

„Við ákváðum að fara þessa leið því að við vorum búnir að vera lengi saman í Frakklandi. Það getur verið þreytt að vera of mikið saman og því vildum við gera þetta afslappaðra í þetta skiptið, fremur en að fara beint í það að spila vináttulandsleik.“

Síðasti landsleikur sem Ísland spilaði var gegn Frakklandi á Stade de France í fjórðungsúrslitum EM.


Tengdar fréttir

Viðar Örn aftur í landsliðið

Fáar breytingar gerðar á hópnum sem fór til Frakklands í sumar. Ísland mætir Úkraínu í byrjun september.

Helgi: Úkraínumenn fljótir að refsa

Úkraína verður fyrsti andstæðingur Íslands í undankeppni HM 2018 en Helgi Kolviðsson, nýr aðstoðarlandsliðsþjálfari, þekkir vel til liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×