Fótbolti

Heimir: Allir vita að þessir leikir eru ekki aðalmálið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland mætir Noregi í vináttulandsleik ytra á morgun og munu landsliðsþjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck ekki tefla fram sínu sterkasta liði.

Heimir sagði á blaðamannafundi í dag að hann væri vongóður um þátttöku þeirra Arons Einars Gunnarssonar og Kolbeins Sigþórssonar en að þeir leikmenn sem hafa verið að spila mikið með félagsliðum sínum á Norðurlöndunum að undanförnu fái hvíld á morgun.

„Þeir eru nýkomnir til okkar eftir langt tímabil og þurfa bæði líkamlega og andlega hvíld,“ sagði Heimir. „Aðrir þurfa meiri keyrslu og við þurfum að keyra þá leikmenn upp sem mættu til okkar í byrjun maí.“

„Það er ólík staða á leikmönnum og mikilvægara að nota leiki til að stilla saman hópinn fyrir leikinn gegn Portúgal.“

Og hann segist ekki óttast slæm úrslit í leiknum gegn Noregi á morgun.

„Það er auðvitað aldrei gott að tapa en allir skilja að þessir leikir eru ekki aðalmálið, hvorki gegn Noregi eða Liechtenstein á mánudaginn. Aðalleikirnir verða gegn Portúgal, Ungverjalandi og Austurríki. Ég held að allir skilji muninn á því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×