Erlent

Heimilt að taka hníf með í skólann af trúarástæðum

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölskylda drengsins er Sikh-trúar og er þar sem mikið er lagt upp úr því að bera hníf, svokallaðan Kirpan, á öllum stundum.
Fjölskylda drengsins er Sikh-trúar og er þar sem mikið er lagt upp úr því að bera hníf, svokallaðan Kirpan, á öllum stundum. Mynd/K5
Grunnskóli í Auburn í Washington-ríki hefur heimilað nemanda við skólann að mæta með hníf í skólann af trúarástæðum.

Fjölskylda drengsins er Sikh-trúar og er þar sem mikið er lagt upp úr því að bera hníf, svokallaðan Kirpan, á öllum stundum.

„Fólk fer jafnvel með hann í sturtu. Það reynist mörgum erfitt að skilja þetta,“ segir Jaswinder Singh, talsmaður Gurudwara Sikh-miðstöðvarinnar í Seattle í samtali við K5.

Sikh-trúaðir kenna börnum sínum frá unga aldri um Kirpan og er hann álitinn vera tákn um félagslegt réttlæti.

Fyrir nokkurm vikum fóru foreldrar nemanda við skólann á fund skólastjóra þar sem honum var tilkynnt að sonur þeirra myndi framvegis mæta með Kirpan-hníf í skólann alla daga.

Margir lýstu yfir óánægju vegna málsins og segir virðing við trúarbrögð ganga of langt ef það er farið að ógna öryggi nemenda.

„Það er útilokað að ég snúi aftur í skólann þar til að hnífurinn er farinn,“ segir sjálfboðaliði í samtali við K5. „Þau geta ekki farið með þetta á flugvöllinn. Af hverju skyldi skóli vera öðruvísi?“

Yfirvöld hafa hins vegar ákveðið að gera undanþágu frá reglunum og benda á að bæði Sikh-trúaðir nemendur og starfsfólk hafi klæðst slíkum hníf um margra ára skeið án þess að sérstakt atvik hafi komið upp. Forsendan sé að hnífurinn sé falinn undir fötum viðkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×